Nr. 124 , 14. desember 1999 Ráðherrafundur EFTA í Genf 13.-14. desember
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 124
Ráðherrafundur EFTA var haldinn í Genf 13. og 14. desember 1999. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd. Á ráðherrafundinum var m.a. rætt um innri málefni EFTA, EES-samninginn, samskipti EFTA við Evrópusambandið svo og samskipti EFTA við þriðju ríki. Málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og ráðherrafundurinn í Seattle voru einnig til umræðu.
Í tilefni af fjörutíu ára afmæli fríverslunarsamtakanna samþykktu ráðherrarnir sérstaka yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni staðfesta ráðherrarnir mikilvægi fríverslunar um leið og þeir leggja áherslu á hlutverk EFTA í evrópska samrunaferlinu með eflingu samvinnunnar við Evrópusambandið. Mikilvægi samskipta EFTA-ríkjanna við þriðju ríki er áréttað, bæði með útvíkkun á gildissviði núverandi fríverslunarsamninga svo og nýjum fríverslunarsamningum, þar sem EFTA-ríkin eiga hagsmuna að gæta.
Fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Kanada hafa verið viðamesta verkefni samtakanna á árinu og ráðherrarnir fögnuðu þeim árangri sem nú þegar hefur náðst um leið og þeir lögðu áherslu á að þeim yrði lokið snemma á næsta ári. Í kjölfar fríverslunarviðræðnanna við Kanada ákváðu ráðherrarnir að kanna áfram gerð fríverslunarsamninga við Mexíkó og Chile. Jafnframt er stefnt að undirbúningsviðræðum um fríverslunarsamning við Suður-Afríku. Ráðherrarnir væntu þess ennfremur að unnt yrði að ljúka gerð fríverslunarsamninga við Makedóníu, Jórdaníu, Egyptaland, Kýpur og Túnis sem fyrst.
Ráðherrarnir fögnuðu því að samstarfsyfirlýsing við Flóaráðið (Gulf Co-operation Council) væri nú tilbúin til undirritunar og væntu þess að unnt yrði að ljúka gerð samsvarandi samstarfsyfirlýsingar við MERCOSUR-ríkin (Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ) innan skamms.
Forsetar EFTA-dómstólsins og Efirlitsstofnunar EFTA sátu fundinn og fluttu skýrslur um starfsemi stofnana sinna.
EFTA-ráðherrarnir áttu einnig fund með þingmannanefnd EFTA þar sem m.a. var skipst á skoðunum um EES-samninginn, tengsl EFTA við ríki utan ESB og málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Að lokum staðfestu ráðherrarnir útnefningu Grétars Más Sigurðssonar, sendifulltrúa, sem varaframkvæmdastjóra EFTA í Genf frá og með 1. september 2000.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 14. desember 1999.