Um hljóðritun símtala
Fréttatilkynning frá dómsmálaráðuneytinu
Þann 1. janúar 2000 tóku gildi ný lög um fjarskipti nr. 107/1999. Er 3. mgr. 44. gr. laganna svohljóðandi: Sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtalið skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum fyrirætlun sína. Nokkrar umræður hafa verið að undanförnu um það hvort ákvæðið gildir um þá aðstöðu þegar hringt er til lögreglu og neyðarlínu, þ.e. að skylt sé að tilkynna viðmælanda að símtalið verði hljóðritað.
Af þessu tilefni vill dómsmálaráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri. Í fyrsta lagi vill það vekja athygli á því að samkvæmt lögum um samræmda neyðarsímsvörun nr. 25/1995 er Neyðarlínunni skylt að skrá og hljóðrita allar tilkynningar sem þangað berast. Ef símtal er flutt til lögreglu þaðan skal símtalið við hana einnig hljóðritað. Er hér um að ræða sérreglur sem ganga framar almennu reglunni í lögum um fjarskipti. Er jafnframt ástæða til að árétta, að þorri beiðna til lögreglu um neyðaraðstoð berst um samræmda neyðarsímsvörun Neyðarlínunnar.
Í þeim tilvikum þar sem hringt er beint til lögreglu þá gilda ákvæði fjarskiptalaga. Eigi að hljóðrita samtalið mun lögregla fylgja þeirri reglu að tilkynna viðmælanda um það í upphafi samtalsins, sbr. 3. mgr. 44. gr., nema því verði ekki unnt að koma við í ljósi öryggissjónarmiða eða vegna neyðarástands. Um árabil hefur verið litið á það sem lið í eðlilegum öryggisaðgerðum lögreglu að hljóðrita símtöl, þegar ástæða þykir til. Þetta úrræði skapar öryggi, t.d. þegar erfitt er að skilja tilkynnanda, eða meta þarf samtalið vegna fyrirhugaðra aðgerða. Þá varða rangar tilkynningar til lögreglu við almenn hegningarlög og því má segja að upptaka geti verið nauðsynleg til að tryggja sönnun, sem ekki væri hægt að öðrum kosti. Síðast en ekki síst getur tími í neyðartilfelli þegar hringt er til lögreglu skipt sköpum, t.d. við hjartaáfall eða líkamsárás.
Dómsmálaráðherra mun kanna í samráði við samgönguráðherra hugsanlega þörf á lagabreytingu sem gæfi heimild til þess að undanþiggja önnur tilvik, en þegar um ræðir samræmda neyðarsímsvörun,.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið 5. janúar 2000