Viðskiptaráðherra óskar eftir greinargerðum bankaráða vegna verklagsreglna
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 3/2000
Viðskiptaráðherra hélt í dag fundi með formönnum bankaráða og aðalbankastjórum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Á fundunum lýsti ráðherra yfir mikilli óánægju með framkvæmd verklagsreglna um verðbréfaviðskipti stjórnenda og starfsmanna.
Með vísan til þess að viðskiptaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka og í kjölfar umræðu um verklagsreglur um verðbréfaviðskipti stjórnenda og starfsmanna skv. 21. gr. og 24. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, hefur ráðherra óskað eftir greinargerðum bankaráða Landsbanka og Búnaðarbanka um hvernig af hálfu bankanna hafi verið staðið að eigin viðskiptum stjórnenda og starfsmanna.
Ráðuneytinu hefur í dag borist bréf frá Fjármálaeftirlitinu þar sem fram kemur að stofnunin hafi átt fund með bankaráði Búnaðarbanka þar sem meðal annars hafi verið kynntar athugasemdir stofnunarinnar við framkvæmd bankans á verklagsreglum skv. 21. og 24. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
Reykjavik, 31. janúar 2000