Skýrsla vinnuhóps um uppbyggingu samræmds lokaprófs í íslensku í grunnskóla
Til grunnskóla og ýmissa annarra aðila
Vinnuhópur um uppbyggingu samræmds lokaprófs í íslensku í grunnskóla hefur skilað skýrslu til ráðherra með tillögum um uppbyggingu prófsins, m.a. með hliðsjón af nýrri skólastefnu og aðalnámskrá grunnskóla.
Menntamálaráðherra hefur samþykkt tillögur hópsins sem fela í sér eftirfarandi meginatriði.
- 1. Samræmt próf í íslensku skal taka mið af markmiðum aðalnámskrár grunnskóla frá 1999 eftir því sem framast er unnt.
2. Ekki verður prófað úr lesnum bókmenntum á samræmdu lokaprófi í íslensku. Þess í stað verður lestur og lesskilningur prófaður með fjölbreyttum verkefnum sem byggjast á margs konar efniviði, m.a. stuttum ólesnum bókmenntatextum.
3. Samræmda prófið á einkum að byggjast á viðfangsefnum út frá margvíslegum textum og megináhersla verður á að meta almenna þekkingu og færni nemenda í ýmsum þáttum íslensku og að þeir beiti kunnáttu sinni í málfræði og stafsetningu.
4. Ákveðinn sveigjanleiki verður í uppbyggingu samræmda prófsins milli ára.
5. Samræmda prófið á að byggjast á fjölbreyttum tegundum spurninga, t.d. fjölvalsspurningum, rétt--rangt spurningum, ritunarverkefnum og verkefnum sem reyna á málnotkun.
6. Hjálpargögn verða ekki leyfð í samræmda prófinu en aukin áhersla lögð á verkefni sem byggjast á notkun ýmissa gagna, t.d. orðabóka og verkefni þar sem reynir á hæfni til að túlka upplýsingar af ýmsu tagi.
Menntamálaráðherra hefur þegar ákveðið að samræmd lokapróf í 10. bekk grunnskóla verði valfrjáls fyrir nemendur vorið 2001 í þeim fjórum námsgreinum sem nú er prófað í. Ofangreindar breytingar á íslenskuprófinu koma þegar til framkvæmda vorið 2001 um leið og prófin verða valfrjáls.
Lokaeinkunn úr grunnskóla í íslensku byggist að jöfnu á einkunn úr samræmdu prófi og skólaprófi. Í aðalnámskrá grunnskóla í íslensku frá 1999 eru markmið á unglingastigi um lestur bókmennta og viðmiðanir um námsmat. Því er gert ráð fyrir að skólaeinkunn í íslensku í 10. bekk byggist að hluta á prófverkefnum úr lesnum bókmenntum sem skólar velja sjálfir.
Vakin er athygli á því að hægt er að nálgast lokaskýrslu vinnuhóps um uppbyggingu samræmds lokaprófs í íslensku í grunnskóla á heimasíðu ráðuneytisins.
(Febrúar 2000)