Viðmiðunarstundaskrá- vikulegur kennslustundafjöldi nemenda
Til grunnskóla
Viðmiðunarstundaskrá- vikulegur kennslustundafjöldi nemenda
Samkvæmt gildandi viðmiðunarstundaskrá og lögum um grunnskóla eiga allir nemendur í 8.-10. bekk að njóta 35 kennslustunda kennslu á viku frá hausti 1999, 36 kennslustunda frá hausti 2000 og 37 kennslustunda frá hausti 2001 nema sérstaklega standi á t.d. vegna veikinda eða sérstakra kennsluúrræða. Hvorki grunnskólalög né aðalnámskrá grunnskóla frá júní 1999 gefa færi á þeirri túlkun að nemendur 10. bekkjar fái mismargar kennslustundir á viku á grundvelli valgreina.
Þá skal bent á að svokallað kjörsvið eða bundið val í 10. bekk er ekki lengur skilgreint í viðmiðunarstundaskrá á bls. 29 í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla frá 1999.
Um valgreinar í grunnskóla gildir aðalnámskrá og reglugerð nr. 387/1996. Með aðalnámskrá 1999 er hvatt til aukins vals í 9. og 10. bekk grunnskóla. Samvinna við framhaldsskóla um valgreinar er eftirsóknarverð og til þess fallin að auðvelda nemendum að færast á milli skólastiga. Um fyrirkomulag, aðstöðu og annað sem snertir slíka samvinnu verða viðkomandi skólar að semja sín á milli.
(Febrúar 2000)