Nr. 012, 25. febrúar 2000. Fundur utanríkisráðherra með Robin Cook
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 012
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Robin Cook utanríkisráðherra Bretlands í Lundúnum. Ráðherrarnir ræddu stöðu evrópskra öryggis- og varnarmála en ljóst er að sú hraða þróun sem nú á sér stað í öryggismálasamvinnu innan Evrópusambandsins mun hafa mikil áhrif á hagsmuni Íslands.
Ennfremur voru málefni kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield tekin fyrir en upplýsingar liggja nú fyrir um slæmt ástand eftirlitsmála í stöðinni. Utanríkisráðherra áréttaði þungar áhyggjur íslenskra stjórnvalda vegna málsins. Almenn samskipti ríkjanna voru einnig rædd, evrópska efnahagssvæðið (EES), Kyoto-ferlið, hvalamál ofl. Bretland er stærsti markaðurinn fyrir íslenskar afurðir en þangað fóru tæplega 20% af útflutningi Íslendinga á síðasta ári.
Utanríkisráðherra kom í morgun fram í útvarpsþætti hjá BBC4 þar sem rætt var um Sellafield. Þar áréttaði hann áhyggjur íslenskra og annarra norrænna stjórnvalda. Síðdegis kom hann síðan fram í ýmsum breskum og írskum fjölmiðlum.
Utanríkisráðherra átti í gær fund með Geoff Hoon varnarmálaráðherra Bretlands og ræddi við hann um öryggis- og varnarmál í Evrópu.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 25. febrúar 2000.