Nýr skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 4/2000
Iðnaðarráðherra hefur skipað Helga Bjarnason verkfræðing í stöðu skrifstofustjóra orku- og stóriðjumála í iðnaðarráðuneytinu. Skipunin gildir frá 15. mars 2000 til fimm ára. Alls sóttu þrír um stöðuna.
Helgi Bjarnason er fæddur árið 1947. Hann er með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk fyrrihlutaprófi frá Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 1970. Hann stundaði framhaldsnám við Lunds Tekniska Högskola frá 1970 til 1973 og lauk M.sc. prófi þaðan með vatna- og virkjunarfræði sem sérgrein. Þá stundaði Helgi framhaldsnám við Stokkhólmsháskóla frá 1978 til 1979 í skipulags- og áætlanagerð.
Helgi Bjarnason hefur m.a. starfað sem verkfræðingur við byggingu Hrauneyjafossvirkjunar og Sultartangastíflu. Frá árinu 1984 starfaði hann við hönnun og áætlanagerð virkjana hjá Landsvirkjun og frá árinu 1993 við umhverfis- og grunnrannsóknir. Hann hefur verið deildarstjóri umhverfisdeildar Landsvirkjunar frá 1995, sem hefur haft með höndum grunnrannsóknir, forathuganir, frumhönnun og mat á umhverfisáhrifum virkjana.
Helgi Bjarnason er kvæntur Svanhildi Eddu Þórðardóttur, deildarsérfræðingi hjá Alþingi.
Reykjavík, 14. mars 2000