Nr. 019, 1. apríl 2000, Ferskfiskdagar í París 29. til 31. mars 2000
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 019
Ferskfiskdagar voru haldnir í París dagana 29. til 31. mars sl. á vegum sendiráðs Íslands í París og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Sautján íslensk fyrirtæki tóku þátt í þessu viðskiptaátaki og 23 frönsk fyrirtæki, þar á meðal stærstu ferskfiskkaupendur í Frakklandi.
Ferskfiskdagarnir voru haldnir í því augnamiði að stuðla að auknum og milliliðalausum útflutningi á ferskum íslenskum fiski á Frakklandsmarkað. Reyndin hefur verið sú að helmingur ferskfisks frá Íslandi á Frakklandsmarkað fer í gegnum erlend fyrirtæki. Á ferskfiskdögunum gafst þátttakendum kostur á að hlýða á sérfræðinga um franska ferskfiskmarkaðinn sem bentu m.a. á sóknarfæri fyrir íslenska útflytjendur. Íslensku þátttakendurnir heimsóttu Rungismarkaðinn í París sem er stærsti ferskvörumarkaður heims og þekktur fyrir fjölbreytileika. Þar voru m.a. kynnt vinnubrögð fiskheildsala. Á Rungismarkaðnum áttu íslensku viðskiptaaðilarnir viðskiptafundi með frönskum kaupendum, sem þar starfa, og kaupa einkum inn fyrir franska veitingastaði. Síðast en ekki síst voru skipulagðir fundir íslenskra útflytjenda og stórra kaupenda annars staðar frá. Útflytjendum gafst kostur á að afla mikilvægra viðskiptasambanda við nokkrar stórmarkaða- og veitingahúsakeðjur, sem og við aðra stóra innflytjendur.
Ferkfiskdagarnir þóttu takast mjög vel og var þátttaka franskra kaupenda framar öllum vonum. Sendiráð Íslands í París og viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins munu vinna að því að fylgja þessum árangri eftir.
Íslensku fyrirtækin sem þátt tóku í ferskfiskdögunum voru: Ferskfiskur, Flökun hf Sandgerði, Glæðir, Hafrót, Íslenskt-ferskt, Máki, Menja, Nýfiskur, Samskip, Stefnir, Stjörnusteinn, Sæfold, Sæport, Sæmark, Tölvumyndir, Toppfiskur og Útgerðafélag Vestmannaeyja. Meðal frönsku fyrirtækjanna má nefna stórmarkaðina Carrefour, Casino og Intermarché, fiskinnflytjandann Pomona, matvælafyrirtækið Davigel og veitingahúsakeðjuna Amarine
Frekari upplýsingar veita Sigríður Ásdís Snævarr sendiherra í París og Unnur Orradóttir viðskiptafulltrúi sendiráðsins (sími 00-33-144173285) ásamt Benedikti Höskuldssyni, sendifulltrúa, viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins (sími 5609900).
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 1. apríl 2000.