Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 021, 10. apríl 2000 Ávarp Benedikts Jónssonar á 56. þingi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 21



Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf, Benedikt Jónsson sendiherra , ávarpaði í dag 56. þing mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Genf.

Í ávarpinu sem fjallaði um konur og mannréttindi rifjaði sendiherrann upp þær skuldbindingar sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu á kvennaráðstefnunni sem haldin var í Beijing árið 1995.

Líkt og gert var af hálfu íslenskra stjórnvalda á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York sl. haust ítrekaði fastafulltrúinn að mannréttindi væru altæk og því ekki hægt að réttlæta mannréttindabrot gegn konum með því að skírskota til trúarbragða, venju eða hefða. Vakti fastafulltrúinn í því sambandi athygli á grófum mannréttindabrotum Talíbana gagnvart konum í Afghanistan á grundvelli trúarbragða. Konur þar gætu ekki haft áhrif á eigin örlög.

Sendiherrann harmaði þær takmarkanir sem konur í sumum ríkjum heims þurfa að þola á ferðafrelsi bæði innanlands og utan. Vísaði hann til nýlegrar samantektar Amnesty International sem dæmi. Hann sagði að aðskilnaður kynjanna væri einnig enn við lýði í sumum ríkjum en aðskilnaður sem slíkur fæli í sér ójafnrétti. Þessi mannréttindabrot ættu skilið meiri athygli af hálfu alþjóðasamfélagsins.

Fastafulltrúinn gerði alþjóðavæðingu og hraðar tækniframfarir að umtalsefni og hvernig talið væri að konur hefðu ekki notið ávaxta þessa í sama mæli og karlmenn. Hann sagði að finna yrði leiðir til að nýta þessa þróun til að auka efnahagsleg og félagsleg réttindi kvenna. Hann lagði sérstaka áherslu á menntun í þessu sambandi.

Fastafulltrúinn lagði áherslu á að mannréttindi kvenna og jafnrétti kynjanna væri ekki síður ábyrgð karla en kvenna. Hann skýrði frá fyrirhuguðu frumvarpi ríkisstjórnar Íslands um foreldra- og fæðingarorlof sem þegar hefur verið kynnt og ætlað er að stuðla enn frekar að jafnrétti kynjanna.

Í lokin tók fastafulltrúinn tvö dæmi um framþróun í mannréttindum kvenna. Í fyrsta lagi nefndi hann valfrjálsu bókunina sem samþykkt var síðastliðið haust á vettvangi Sameinuðu þjóðanna við alþjóðasamninginn um afnám alls misréttis gegn konum. Í öðru lagi Rómarsamþykktina um alþjóðasakadómstólinn sem skilgreinir meðal annars nauðgun og kynlífsþrælkun sem glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi. Íslensk stjórnvöld skoruðu á önnur ríki að undirrita og vinna að fullgildingu þessara samþykkta.

Ávarp fastafulltrúa fylgir hjálagt.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. apríl 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta