Nr. 022, 11. apríl 2000 Ávarp Eiðs Guðnasonar, sendiherra, á 11. þingi CITES
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 22
Þriðjudaginn 11. apríl flutti Eiður Guðnason sendiherra ávarp fyrir Íslands hönd á 11. þingi aðildaríkja samningsins um alþjóðlega verslun með dýr og plöntur í útrýmingarhættu (CITES), sem nú fer fram í Nairobi. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í þingi aðildarríkja samningsins sem fullgildur aðili, en Ísland gerðist aðili að samningnum 2. apríl sl.
Í ávarpinu er gerð grein fyrir fyrirvörum Íslands vegna hvalategunda sem enn eru á skrá í viðaukum samningsins yfir tegundir sem eru í útrýmingarhættu. Áréttað er að skýrar vísindalegar ástæður verði að liggja að baki ákvörðunum um að setja einstakar dýra- og plöntutegundir í viðauka samningsins. Jafnframt er lögð áhersla á að starf samningsins beinist að þeim tegundum dýra og plantna sem vísindalegar niðurstöður sýna að séu í útrýmingarhættu og sem sé ógnað af alþjóðlegum viðskiptum. Því sé nauðsynlegt að skráning tegunda í viðauka samningsins sé endurmetin með tilliti til nýrra viðmiðunarreglna. Í þessu samhengi lagði Ísland áherslu á að horft yrði til einstakra stofna og stöðu þeirra í stað þess að horfa eingöngu til tegunda.
Þinginu lýkur 20 apríl n.k. Ávarpið fylgir hér með.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 11. apríl 2000.