Reglugerð um öryggislok og áþreifanlega viðvörun
Umhverfisráðuneytið hefur gefið út reglugerð um öryggislok og áþreifanlega viðvörun sem tók gildi 10. mars sl. Ákvæði reglugerðarinnar gilda um umbúðir af öllum stærðum og gerðum sem í eru hættuleg efni eða efnablöndur. Reglugerðin tekur til vöru sem ætluð er til dreifingar á almennum markaði. Markmiðið er að auka öryggi við meðferð efnanna einkum með tilliti til barna annars vegar og sjónskertra einstaklinga hins vegar.
Eftirtalin hættuleg efni og vörutegundir skulu búnar öryggislokum sem börn geta ekki opnað:
- 1) Efni og vörutegundir flokkaðar sem Sterkt eitur, Eitur eða Ætandi.
2) Efni og vörutegundir sem fá hættusetningu H65: Hættulegt: getur valdið lungnaskaða við inntöku auk varnaðarmerki sem Hættulegt heilsu. Undanþegin þessu ákvæði eru efni eða vörutegundir í úðabrúsum.
3) Vörutegundir sem í eru 3% eða meira af metanóli.
4) Vörutegundir sem í eru 1% eða meira af díklórmetani.
Áþreifanleg viðvörun um hættu skal vera á umbúðum hættulegra efna og vörutegunda ef þær flokkast sem: Sterkt eitur, Eitur, Ætandi, Hættulegt heilsu, Afar eldfimt eða Mjög eldfimt. Undanþegin eru efni og vörutegundir í úðabrúsum sem eingöngu eru hættuflokkaðar sem Afar eldfimt eða Mjög eldfimt.
Áþreifanleg viðvörun er upphleyptur þríhyrningur.
Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Leiki vafi á að búnaður sem um getur í reglugerðinni sé í samræmi við ákvæði í viðauka með reglugerðinni geta eftirlitsaðilar krafið ábyrgan aðila um upplýsingar um það sem máli skiptir, s.s. prófunarvottorð.
Fréttatilkynning nr. 9/2000
Umhverfisráðuneytið