Dagur umhverfisins haldinn hátíðlegur víðs vegar um land, 25. apríl 2000
Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur í annað sinn á Íslandi 25. apríl næstkomandi. Viðburðir verða af þessu tilefni á a.m.k. átta stöðum á landinu. Dagurinn er hugsaður sem hvatning til skólafólks og almennings að kynna sér betur samskipti manns og náttúru og sem tækifæri fyrir stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðla til að efla opinbera umræðu um umhverfismál.
Af þessu tilefni veitir umhverfisráðuneytið viðurkenningar til fyrirtækja og fjölmiðla fyrir starf að umhverfismálum. Afhendingin fer fram í húsnæði Vatnsveitu Reykjavíkur við Gvendarbrunna kl. 12 þennan dag. Fulltrúum fjölmiðla er boðið að vera viðstaddir afhendinguna. Að auki er umhverfisráðuneytinu kunnugt um fjölmarga aðra viðburði í tilefni dagsins víðs vegar um land og er yfirlit yfir þá hér að neðan.
Dagur umhverfisins, 25. apríl, er fæðingardagur Sveins Pálssonar landlæknis, fyrsta Íslendingsins sem lauk prófi í náttúrufræðum. Sveinn var baráttumaður fyrir umhverfisvernd á sinni tíð, en hann vakti athygli á hnignun íslenskra skóga og hvatti stjórnvöld til að stemma stigu við eyðingu þeirra. Það er von umhverfisráðuneytisins að sem flestir noti tækifærið og haldi upp á daginn á þann hátt sem hæfir tilefni hans.
Viðburðir á Degi umhverfisins:
* Akranes
Ákvörðun bæjarstjórnar Akraness um viðamikið verkefni á sviði heimajarðgerðar verður kynnt kl. 10 á Degi umhverfisins. Stefnt er að á næstu 5 árum verði 25% heimila eða um 500 heimili farin að jarðgera lífrænt sorp. Einnig verður kynnt starf á Akranesi í verkefninu Vistvernd í verki.
* Akureyri
Viðamikil og fjölbreytt dagskrá verður á Akureyri á Degi umhverfisins og má þar nefna kynningu á starfsemi Skógræktarfélags Eyfirðinga, opið hús hjá stofnunum á sviði umhverfismála, kynningu á jarðgerð lífræns úrgangs á Ráðhústorgi, kvöldgöngu í Glerárgili og erindi um skógrækt á Íslandi í hnattrænu samhengi (sjá viðhengi með nánari dagskrá)
* Árborg
Vinnuhópur um Staðardagskrá 21 í Árborg afhendi bæjarstjórn Árborgar með tillögu að Staðardagskrá 21 fyrir sveitarfélagið.
* Fjarðabyggð
Í tilefni af Degi umhverfisins býður Náttúrustofa Austurlands íbúum Austurlands að koma og hlýða á fyrirlestra að kvöldi 25. apríl frá kl. 20.00-23:00 í nýjum húsakynnum sínum í austurenda Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.
· Skarphéðinn Þórisson, líffræðingur mun fjalla um fuglalíf í Fjarðabyggð
· Ólafur Arnalds, jarðvegsfræðingur mun fjalla um ástand lands í Fjarðabyggð
· Guðný Zoëga, fornleifafræðingur mun fjalla um fornminjar í Fjarðabyggð.
(Sjá frekar á www.simnet.is/na)
Í tilefni af deginum hvetur umhverfismálanefnd Fjarðarbyggðar bæjarbúa til að draga úr notkun bifreiða og ganga eða hjóla í og úr vinnu og skóla. Jafnframt er dagurinn upphafsdagur á "Heilsudögum í Fjarðabyggð" þar sem félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki standa fyrir dagskrá frá 25. apríl og fram eftir vori.
* Hafnarfjörður
Í Hafnarfirði verður ýmislegt á döfinni: Fjölmargir leikskólar standa fyrir bíllausum degi, ruslatínslu eða náttúruskoðun. Stýrihópur um Staðardagskrá 21 veitir 3.bekk HSH í Setbergsskóla viðurkenningu fyrir myndskreytingar á ráðstefnu um Staðardagskrá í Hafnarfirði, en myndirnar verða til sýnis í Firðinum vikuna 25. apríl til 2. maí. Umhverfisnefnd Hafnarfjarðarbæjar veitir umhverfisverðlaun fyrir frumkvæði eða önnur verkefni sem tengjast umhverfismálum.
Bæjarfulltrúar munu afneita einkabílnum þennan dag og halda á bæjarstjórnarfund gangandi, hjólandi, á hjólabretti eða annan vistvænan hátt.
* Hornafjörður
Í Sveitarfélaginu Hornafjörður verða íbúar hvattir til að skilja bílinn eftir heima og hjóla eða ganga á Degi umhverfisins. Frekari umfjöllun um Dag umhverfisins verður Eystrahorni og Skjávarpinu á Hornafirði.
* Hveragerði
Farið verður í göngu og skoðunarferð um Hveragerði, Heilsustofnun H.N.L.F.Í. og Ölfusið. Gönguferðin hefst á Hverasvæðinu kl.13:00 í Hveragerði og lýkur ferðinni á Garðyrkjuskólanum, en þar verður fræðsla um lífrænar ræktunaraðferðir kl.15:00. Þema ferðarinnar er að benda á kosti þess að rækta lífrænt. Hveragerðisbær mun afhenda umhverfisverðlaun, kirsuberjatréð.
* Reykjavík
Viðurkenning frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála og náttúruverndar til einstaklings fyrir einstakt framlag til náttúru- og umhverfisverndarmála verður afhent við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur, kl. 16:30. Forseti Íslands afhendir viðurkenninguna.
Fréttatilkynning nr. 11/2000
Umhverfisráðuneytið