Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 025, 19.apríl 2000 Opinber heimsókn utanríkisráðherra til Tyrklands.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 025


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og frú Sigurjóna Sigurðardóttir eru í opinberri heimsókn í Tyrklandi og átti utanríkisráðherra í dag viðræður við Ismail Cem utanríkisráðherra Tyrklands. Einnig hitti hann að máli Süleyman Demirel forseta Tyrklands.
Á fundinum með Ismail Cem utanríkisráðherra voru rædd tvíhliða samskipti Íslands og Tyrklands, staða mála í Evrópu og önnur alþjóðamálefni. Ráðherrarnir ræddu aukna pólitíska og viðskiptalega samvinnu Íslands og Tyrklands og undirrituðu samkomulag um árlegar viðræður milli landanna og aukin samskipti þeirra. Varðandi viðskiptalega samvinnu var m.a. rætt um að á ný yrði hafið samstarf um nýtingu jarðhita í Tyrklandi.
Rætt var um áherslur í tyrkneskri utanríkispólitík sem miða að bættum samskiptum við nágrannaríki Tyrklands, fyrirhugaðri inngöngu Tyrklands í ESB, lausn Kýpurdeilunnar og varnarsamstarf innan Evrópu. Einnig ræddu ráðherrarnir ýmis konar aðra samvinnu, þ.á m. samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna ásamt svæðasamvinnu á norðurslóðum.
Í viðræðum við forseta Tyrklands var ennfremur rætt um samvinnu Íslands og Tyrklands, s.s. nýtingu jarðhita, stöðu Tyrklands í Evrópu, friðarferlið á Balkanskaga og skipan varnar- og öryggismála í Evrópu.
Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur utanríkisráðherra fer í opinbera heimsókn til Tyrklands.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. apríl 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta