Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherrafundur nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í New York


Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra mun dagana 25.-28. apríl sitja ráðherrafund nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í New York. Nefndin hefur það megin verkefni að fylgja eftir framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun sem samþykkt var á Ríó-ráðstefnunni árið 1992.

Á síðasta fundi nefndarinnar fyrir ári voru málefni hafsins sérstaklega tekin til umfjöllunar, annars vegar sjálfbær nýting fiskistofna og hins vegar mengun sjávar frá landi. Viðfangsefni fundarins verða að þessu sinni viðskipti, fjárfestingar og hagvöxtur annars vegar og samþætt landnýtingarskipulag, landbúnaður og skógrækt hins vegar.

Umræðan um viðskipti, fjárfestingar og hagvöxt hefur einkum beinst að sjálfbærri efnahagsþróun í þróunarríkjunum. Í umfjöllun um landnýtingu mun umhverfisráðherra gera grein fyrir reynslu Íslands af jarðvegseyðingu og landgræðslu. Af þeirri reynslu má draga lærdóm sem nýst getur öðrum þjóðum. Framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um eyðimerkurmyndun verður einnig til umfjöllunar. Þessi samningur er einkar mikilvægur fyrir þróunarríkin sem eiga við mikil jarðvegseyðingarvandamál að stríða.

Í umræðunni um landbúnað er m.a. tekist á um útflutningsbætur í landbúnaði sem m.a. er réttlætt með tilvísun til fjölþætts hlutverks landbúnaðar í byggðamálum og við varveislu menningar og menningarlandslags. Einnig er tekist á um lífrænan landbúnað og notkun líftækni í landbúnaði einkum með tilliti til áhrifa á umhverfið. ESB hefur lagt til að sjálfbær landbúnaður verði skilgreindur á alþjóðavettvangi. Ekki hefur náðst samstaða um þá tillögu.

Mikilvægt viðfangsefni fundarins í New York verður fyrsta umræða um það hvernig standa skuli að mati á árangri á leið til sjálfbærrar þróunar sem fram á að fara árið 2002 þegar 10 ár verða liðin frá tímamótaráðstefnunni í Ríó. Ísland hefur stutt þá stefnu að haldin verði alþjóðleg ráðstefna að þessu tilefni og að hún fari fram í einhverju þróunarríkjanna ef kostur er. Þar mun gefast mikilvægt tækifæri bæði til þess að meta árangur á þeim árum sem liðin eru frá Ríó og jafnframt til að leita leiða til að stuðla enn frekar að sjálfbærri þróun um heim allan.

Frekari upplýsingar gefur Einar Sveinbjörnsson 5609600 eða 8964189.

Fréttatilkynning nr. 12/2000
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta