Hoppa yfir valmynd
2. maí 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp ráðherra á blaðamannafundi um DNA-skýrslu

Ávarp dómsmálaráðherra á blaðamannafundi um skýrslu nefndar, sem skipuð var til að vinna að undirbúningi reglna um DNA-rannsóknir, 28. apríl 2000.


Góðir fundarmenn.

Ég hef boðað til þessa blaðamannafundar í tilefni af skýrslu sem ég hef nú fengið í hendur frá nefnd, sem í janúar 1999 var skipuð til að vinna að undirbúningi reglna um DNA rannsóknir, nánar tiltekið um sýnatöku, skrásetningu sýna og vörslu þeirra, í þágu rannsókna sakamála. Full ástæða er til að vekja athygli á skýrslu þessari og þeim tillögum sem þar eru settar fram, enda hafa DNA rannsóknir þegar sannað gildi sitt sem mikilvæg rannsóknargögn og brýnt er, að settar verði skýrar reglur um notkun þessarar tækni í þágu rannsóknar opinberra mála. Sem kunnugt er, hafa DNA tæknirannsóknir gert okkur kleift að upplýsa margvísleg brot sem seint eða aldrei hefði mátt upplýsa með notkun hefðbundinna rannsóknaraðferða lögreglu. Um mikilvægi DNA rannsókna þarf því vart að fjölyrða lengur. Gagnsemi DNA tækninnar á þeim vettvangi sem hér um ræðir byggist þó ekki eingöngu á bættum möguleikum á að upplýsa afbrot, heldur tel ég ekki síður mikilvægt að minna á, að tæknin hefur einnig verið notuð til að sýna fram á sakleysi manna sem hlotið hafa refsidóma. Gegna þessar rannsóknir því í raun tvíþættu hlutverki í þessu tilliti, þótt hið síðarnefnda vilji oft gleymast í umræðunni.

Það er hins vegar gömul saga og ný, að tilkoma nýrra tæknimöguleika vekur upp ýmsar spurningar. Því er nauðsynlegt að setja reglur um notkun tækninnar til að stemma stigu við því sem telja má hugsanleg óæskileg not hennar. Í því sambandi sem hér um ræðir þarf að gæta að reglum um persónuvernd, hvaða sýni skal geyma, vörslu og meðferð sýna, svo og um eyðingu sýna.

Í skýrslunni sem hér hefur verið lögð fram er leitast við að svara ofangreindum spurningum, jafnframt því sem settar eru fram tillögur um regluverk um notkun DNA tæknirannsókna í þágu rannsóknar opinberra mála. Nágrannaþjóðir okkar hafa þegar sett slíkar reglur eða eru um það bil að setja þær, þannig að við Íslendingar erum að þessu leyti samstíga þeirri þróun.
Notkun DNA samanburðarrannsókna í þágu rannsóknar sakamála á sér ekki langa sögu og fyrsta málið sem kunnugt er um að byggt hafi verið á slíkri rannsókn er breskt, svokallað Pitchfork mál frá 1987. Atvikum þess máls er lýst í skýrslunni, ásamt því sem reifaðir eru íslenskir dómar, þar sem reynt hefur á gildi DNA sniða sem sönnunargagna. Gefa mál þessi glögga mynd af því hversu gríðarlega mikilvæg rannsóknargögn hér er um að ræða.

Eftir því sem meira hefur orðið um DNA samanburðarrannsóknir í þágu rannsóknar opinberra mála hefur vaknað umræða um svokallaða DNA skrá, sem lögregla hafi aðgang að. Slíkar skrár eru m.a. haldnar á Norðurlöndum, í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Ýmis rök má færa með og á móti kerfisbundinni skráningu upplýsinga um erfðagerð (DNA snið) í þágu rannsóknar opinberra mála og fram kemur í skýrslunni, að nefndin hefur í starfi sínu haft hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem uppi eru í því sambandi. Af lestri ský rslunnar er ljóst að tillögur nefndarinnar endurspegla, að vel hefur tekist að ná þeim samhljómi sem nauðsynlegur er til þess að sátt náist um þetta mikilvæga mál.

Þótt í skýrslunni sé lagt til að hér á landi verði hafin kerfisbundin skráning upplýsinga um erfðagerð, fengnar úr lífsýnum, sem tekin hafa verið í þágu rannsóknar, nánar tiltekinna tegunda opinberra mála, er jafnframt með ýmsum hætti leitast við að tryggja öryggi við meðferð upplýsinganna og slegnir varnaglar við hvers kyns misnotkun.

Í stuttu máli eru niðurstöður nefndarinnar eru þær að lagt er til að hér á landi verði hafin kerfisbundin skráning upplýsinga um erfðagerð, fengnar úr lífssýnum sem tekin hafa verið í þágu rannsóknar opinberra mála. Er horft til þess að með aðgengilegum upplýsingum aukist möguleikar lögreglu til samanburðarrannsókna, sem eru til þess fallnið að auðvelda rannsókn tiltekinna alvarlegra brota, þar sem einna mestar líkur eru á að brotamaðurinn skilji eftir sig líffræðileg spor, s.s. í kynferðisafbrota, líkamsárásar, og manndrápsmálum.

Ég tel að með slíkri skráningu væri stigið mjög mikilvægt skref í að auðvelda uppljóstrun alvarlegra afbrota hér á landi. Þess má einnig geta tækniþekking á þessu sviði hér á landi er orðin það fullkomin og vísindamenn okkar svo hæfir að þeir möguleikar kynnu að opnast að við tækjum að okkur DNA-tæknirannsóknir fyrir aðrar þjóðir.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka nefndarmönnum, sem eru Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Bjarni J. Bogason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, Gunnlaugur Geirsson, prófessor, Haraldur Briem, yfirlækni, Þórir Oddsson, vararíkislögreglustjóri, og Ragnheiður Harðardóttir, saksóknari, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, sérstaklega fyrir þessa skýrslu, sem ég tel að muni verða okkur til mikils gagns við þá vinnu sem framundan er í þessum málaflokki. Allir nefndarmenn, að Haraldi undanskildum, eru með mér hér í dag og við erum tilbúin að svara þeim spurningum sem þið kunnið að hafa.

Að svo mæltu við ég biðja formann nefndarinnar, Ragnheiði Harðardóttur, saksóknara, að taka til máls og gera nánar grein fyrir efni skýrslunnar. Eftir að hún hefur lokið máli sínu mun Gunnlaugur Geirsson, prófessor, fjalla stuttlega um DNA tæknina og notkun hennar við rannsókn opinberra mála.

Ég þakka áheyrnina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta