Nr. 06/2000
Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 6/2000
Tilraunaeldi á norskum laxi
Að undanförnu hafa landbúnaðarráðuneytinu borist umsóknir frá fiskeldisfyrirtækjum, þar sem óskað er eftir leyfi til að ala norskan lax í kvíum. Óskað hefur verið eftir leyfi til eldis við Vogastapa á Reykjanesi, í Hvalfirði og í Eyjafirði.
Eftir ítarlega umfjöllun í samráði við færustu sérfræðinga og hagsmunaaðila hefur landbúnaðarráðuneytið ákveðið að heimila eldi í kvíum í tilraunaskyni við Vogastapa á Reykjanesi næstu tvö ár. Heimildin er bundin við svokallað skiptieldi þannig að ekki verður heimilt að hafa fisk í kvíunum í janúar, febrúar og mars. Þá hefur jafnframt verið ákveðið að fram fari mat á hugsanlegum áhrifum á lífríki Stakksfjarðar og nærliggjandi svæða og verður það mat framkvæmt af nefnd sérfræðinga sem landbúnaðarráðherra skipar.
Í ljósi þess áhuga sem nú er á frekara eldi í kvíum hér við land og þeirra miklu hagsmuna sem falin eru í hlunnindum meira en 1.000 veiðijarða hefur landbúnaðarráðherra ákveðið að skipa starfshóp er fari yfir þætti sem snerta sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru. Til starfa í þeim hópi verða kallaðir fulltrúar hagsmunaaðila og sérfræðingar sem að málaflokknum vinna.
Í landbúnaðarráðuneytinu, 3. maí 2000