Hoppa yfir valmynd
10. maí 2000 Matvælaráðuneytið

Notkun hauggass til raforkuframleiðslu

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 6/2000





    Metan hf. hefur fengið leyfi iðnaðarráðherra til raforkuframleiðslu með notkun hauggass. Samkvæmt orkulögum þarf leyfi ráðherra til að reka 200 til 2000 kW raforkuver, en raforkuver Metans hf. verður 1000 kW. Gasmagnið sem fyrirtækið hefur nú til umráða er u.þ.b. 400-500 m3/klst. Ef það gas yrði eingöngu notað til raforkuframleiðslu myndi það samsvara um 8 GWh á ári í raforku. Það er vel þekkt að nota óhreinsað hauggas til framleiðslu á raforku þó svo að slíkt hafi hingað til ekki verið gert hérlendis. Til slíkrar framleiðslu er notuð gasvél sem knýr rafal.

    Metan (CH4) er lofttegund sem m.a myndast á urðunarstöðum sorps við niðurbrot á lífrænum úrgangi. Hérlendis er metani safnað á urðunarstað Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins bs. (SORPU) í Álfsnesi, en samkvæmt starfsleyfi ber SORPU að safna hauggasi sem myndast við rotnun lífrænna úrgangsefna á urðunarstaðnum og nýta það eftir því sem kostur er. Metan hf., sem stofnað var 20. ágúst 1999, vinnur að nýtingu hauggassins. Eigendur Metans hf. eru SORPA og Aflvaki hf. Tilgangur Metans hf. er hreinsun, dreifing og sala á metani, framleiðsla á orku úr metani, þróun á umhverfisvænum orkugjöfum og önnur skyld starfsemi.

    Við söfnun hauggassins í Álfsnesi er urðunarsvæðinu skipt í urðunarreinar sem þaktar eru jarðvegi. Þegar yfirborð urðunarreinar er orðið nokkuð jafnt, þá er lóðréttum safnrörum komið fyrir með u.þ.b. 25 m. millibili. Safnrörin eru 65 mm að þykkt og eru þéttboruð götum. Hvert rör er tengt með plaströri í sérstaka ventlakistu, sem komið hefur verið fyrir í 20 feta skipagámi. Ventlakistan er síðan tengd sérstakri dælu sem sogar gasið úr haugnum, og er sogkraftur stilltur þannig að ekki dragist niður súrefni.

    Hauggasið sem myndast á urðunarstaðnum í Álfsnesi er blanda af metani og koldíoxíði og örfáum öðrum lofttegundum (hlutfall metans er um 55%, koldíoxíðs um 42% og annarra lofttegunda 3%). Fram til þessa hefur hauggasinu verið eytt með bruna til þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum, sem eru 25 sinnum verri en gróðurhúsaáhrif af völdum koldíoxíðs (CO2).

    Ögmundur Einarsson er framkvæmdastjóri Metans hf og Jón Atli Benediktsson er stjórnarformaður.
    Reykjavík, 10. maí 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta