Hoppa yfir valmynd
18. maí 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dómsmálaráðherra við kynningu umferðarverkefnis JC á Íslandi

Ávarp dómsmálaráðherra við kynningu umferðarverkefnis JC á Íslandi, 12. maí 2000


Góðir gestir,

Mér er mikill heiður að flytja ávarp nú þegar ýtt er úr vör umferðarverkefni JC á Íslandi. Ég hef kynnt mér þá dagskrá sem lagt er upp með, sem er bæði áhugaverð og metnaðarfull. En þetta verkefni er helgað minningu Ingvars Helgasonar, fyrsta landsforseta JC á Íslandi.

Nú er nýafstaðin umferðarráðstefna dómsmálaráðherra, undir yfirskriftinni "Bætt umferðarmenning – burt með mannfórnir". Þar lagði ég áherslu á að þjóðarvakning um betri umferð verði að eiga sér stað - samstillt átak allara landsmanna sé það sem þjóðin þarfnist.

Verkefni JC á Íslandi er dæmi um það sem ég átti við og tel nauðsynlegt. Allur almenningur, bæði einstaklingar og félagasamtök, bera ábyrgð ásamt stjórnvöldum á því að koma umferðarmálum í heillavænlegra horf.

Umfjöllun um hættur umferðarinnar og leiðir til meira öryggis eru af hinu góða. Verkefni JC á Íslandi er einmitt til þess fallið að vekja athygli á þörfinni á því að sýna ábyrgð og tillitssemi í umferðinni, og gæta vel að öryggi okkar náustu. Slík umræða er bráðnauðsynleg.

Umferðarslys eru alvarlegt þjóðfélagsmein. Of margir látast eða slasast alvarlega á ári hverju, og fjárhagslegt tjón samfélagsins er gífurlegt. Við getum ekki litið svo á að þessar fórnir séu óhjákvæmilegar. Þvert á móti ber okkur að spyrna við fótum og grípa til aðgerða sem stuðla að auknu umferðaröryggi.

Ég hef lagt fram nýja umferðaröryggisáætlun í ríkisstjórn. Sú áætlun gerir ráð fyrir eflingu rannsókna, átaki í umferðareftirliti, bættu tækjakosti lögreglunnar, og löggjafarbreytingum í þágu bættrar umferðar og ýmsum aðgerðum til stuðnings ungum ökumönnum sem eru í mesta áhættuhópnum. Þetta er metnaðarfull áætlun sem ég mun fylgja fast eftir. Hins vegar er það svo að árangur mun ekki nást og umferðarslysum fækka verulega nema með víðtækri samstöðu í þjóðfélaginu um bætta umferðarmenningu.

Umferðarverkefni JC á Íslandi er skref í átt að þeirri samstöðu og vil ég því þakka forsvarsmönnum samtakanna þeirra frumkvæði. Ég vona að verkefnið fái þá athygli sem það á skilið – umferðarmál varða heill þjóðarinnar allrar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta