Nr. 031, 22. maí 2000. Almannavarnaræfingin Samvörður 2000.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Almannavarnaræfingin Samvörður 2000 verður haldin á Íslandi dagana 7.-12. júní næstkomandi. Æfingin er hluti af alþjóðlegu öryggis-og varnarmálasamstarfi Atlantshafsbandalagsins Samstarfi í þágu friðar, "Partnership for Peace". Samvörður 2000 er önnur almannavarnaræfing sinnar tegundar sem haldin er á Íslandi. Fyrsta æfingin var haldin á Íslandi árið 1997. Tilurð almannavarnaræfinga af þessu tagi má rekja til þeirrar stefnu íslenskra stjórnvalda að auka hlut Íslands í alþjóðlegu öryggis-og varnarmálasamstarfi.
Utanríkisráðuneytið, almannavarnir ríkisins og landhelgisgæslan munu hafa umsjón með skipulagi Samvarðar 2000 fyrir Íslands hönd. Yfirstjórn æfingarinnar verður í höndum Sólveigar Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra almannavarna ríkisins.
Markmið friðarsamstarfsæfinga er að styrkja og samhæfa aðgerðir herja og borgaralegra stofnana aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess á sviði friðargæslu, björgunarstarfa og viðbragða við náttúruhamförum.
Auk landhelgisgæslunnar og almannavarna ríkisins munu rúmlega 400 íslenskir sjálfboðaliðar taka þátt í æfingunni, ásamt lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitarmönnum.
Atburðarás Samvarðar 2000 snýst um björgun skemmtiferðaskips í hafsnauð. Æfingin er tvískipt. Fyrri hluti hennar felst í fyrirlestrum og málstofu, en síðari hlutinn er vettvangsæfing. Vettvangsæfingin felst í því að bjarga 150 farþegum frá borði brennandi skemmtiferðaskips með áherslu á slökkvistörf, reykköfun, varúðarráðstafanir vegna eiturefna, aðhlynningu slasaðra, flutning slasaðra og óslasaðra frá borði í land og móttöku og umönnun í landi.
Samtals taka fulltrúar frá fimmtán aðildarríkjum og samstarfsríkjum Atlantshafsbandalagsins þátt í æfingunni. Auk Íslands koma þátttakendur frá Bandaríkjunum, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Þýskalandi, Írlandi, Kýrgizstan, Noregi, Litháen, Póllandi, Rússlandi, Svíþjóð og Úzbekistan
Tilurð, þátttaka, skipulag og markmið Samvarðar 2000 verða kynnt nánar þegar nær dregur. Sérstakri upplýsingamiðstöð fyrir fjölmiðla í tilefni æfingarinnar verður komið á laggirnar í upplýsingamiðstöð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við utanríkisráðuneytið.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 22. maí 2000.