Hoppa yfir valmynd
23. maí 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 033, 23. maí 2000. 13. fundur EES-ráðsins haldinn í Brussel 23. maí 2000.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 033


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í Brussel í dag 13. fund EES-ráðsins. Í EES-ráðinu sitja utanríkisráðherrar aðildarríkja evrópska efnahagssvæðisins ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB.

Í yfirlýsingu fundarins kemur fram að framkvæmd EES-samningsins gangi vel og áréttað er mikilvægi þess að EES/EFTA-ríkin fái reglulega upplýsingar um stækkunarferli Evrópusambandsins. Þá er ánægju lýst yfir samþykkt ákvörðunar um Þróunarsjóð EFTA sem ætlað er að draga úr efnahags- og félagslegu misvægi í Evrópu. Samkvæmt ákvörðuninni munu EES/EFTA-ríkin greiða á fimm ára tímabili 119,6 milljónir evra einkum til ríkja í sunnanverðri Evrópu í fyrrgreindum tilgangi.

Ekki tókst að finna lausn á ágreiningi sem verið hefur milli Evrópusambandsins og EES/EFTA-ríkjanna um bókun 3 við EES-samninginn um unnar landbúnaðarafurðir en ákveðið var að halda áfram að leita lausnar á því máli. Auk þess var tekin ákvörðun um að stefna að fleiri ráðherrafundum milli EES/EFTA-ríkjanna og ESB eftir fagsviðum um málefni sem heyra undir innri markaðinn. Einnig voru aðildarríkin sammála um að leita skynsamlegra leiða til að tryggja að ekki verði rof í þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í rannsóknar- og þróunarsamstarfi innan ESB frá þeim tíma sem ESB tekur ákvörðun um slíkt samstarf þar til formleg ákvörðun um þátttöku EES/EFTA-ríkjanna er tekin.

Utanríkisráðherra lagði áherslu á að þrátt fyrir að ESB-ríkin nytu fullrar fríverslunar með fisk í EES/EFTA-ríkjunum, væri slík fríverslun ekki gagnkvæm þar sem Evrópusambandið legði ennþá tolla á sumar fisktegundir frá EES/EFTA-ríkjunum. Það skyti því skökku við, þrátt fyrir vaxandi eftirspurn á evrópskum fiskmörkuðum, að Ísland þyrfti að leita markaða fyrir sína meginútflutningsvöru utan Evrópu, jafnvel við lönd sem Ísland hefði ekki gert við fríverslunarsamninga. Utanríkisráðherra sagðist hafa ástæðu til að ætla, í ljósi samtala við einstök aðildarríki ESB, að aukin fríverslun með fisk væri ekki eins viðkvæmt mál í dag og fyrir átta árum þegar samið var um evrópska efnahagssvæðið. Mikilvægt væri því að kanna hvort svigrúm væri nú til staðar fyrir aukna fríverslun með fisk. Vonast væri eftir samkomulagi við Evrópusambandið um þetta mikilvæga hagsmunamál á næstu mánuðum.

Í tengslum við fund ráðsins var að venju haldinn sérstakur fundur ráðherra EES-ríkjanna þar sem skipst var á skoðunum um pólitísk málefni. Til umræðu var þróun öryggis- og varnarmála innan ESB, ástandið á Balkanskaga og staða mála í Rússlandi, þ.á.m. Tsjetsjníu. Í umræðunni um þróun öryggis- og varnarmála innan Evrópusambandsins sagði utanríkisráðherra mikilvægt að finna varanlegar lausnir á samstarfi milli ESB og Atlantshafsbandalagsins og því væri nauðsynlegt að þessi tvö ríkjasamtök kæmu á fót sameiginlegum viðræðuvettvangi um þróun öryggis- og varnarsamstarfs í Evrópu.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. maí 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta