Noral-verkefnið - undirbúningur virkjana og álvers á Austurlandi
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 8/2000
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og fulltrúar Hydro Aluminium as, Hæfis hf., Landsvirkjunar og Reyðaráls hf. hafa undirritað viljayfirlýsingu sem staðfestir áhuga og skuldbindingu allra sem að Noral-verkefninu koma, um að meta forsendur og hagkvæmni álvers í Reyðarfirði, nauðsynlegra virkjana og annarra tilheyrandi mannvirkja. Miðað er við að unnt verði að taka ákvörðun fyrir 1. febrúar 2002 um hvort ráðist verði í framkvæmdir.
Með viljayfirlýsingunni vilja málsaðilar samræma vinnubrögð, með það að markmiði að hægt verði að taka endanlega ákvörðun um það fyrir 1. febrúar 2002, hvort verkefninu verði haldið áfram. Ljúka þarf ýmsum umfangsmiklum verkefnum og samningum áður en sú ákvörðun verður tekin.
Reyðarál hf., sameiginlegt fyrirtæki Hydro Aluminium as og Hæfis hf., annast undirbúning vegna álvers í Reyðarfirði. Eigendur Reyðaráls hf. munu sjá fyrirtækinu fyrir nauðsynlegu fjármagni og öðru sem til þarf vegna undirbúningsvinnu félagsins. Þar á meðal er mat á umhverfisáhrifum álversins, verkfræði- og arðsemisáætlanir.
Landsvirkjun undirbýr virkjunarframkvæmdir á Austurlandi, þar á meðal mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Markmiðið er sala raforku til álvers Reyðaráls á samkeppnishæfu verði á grundvelli langtímasamnings.
Ríkisstjórnin mun stuðla að lagabreytingum til að tryggja Landsvirkjun heimild til að ráðast í virkjunarframkvæmdir. Ríkisstjórnin mun leitast við að ábyrgjast að tiltækt sé nauðsynlegt fjármagn til fjárfestinga í opinberum framkvæmdum, þ.m.t. framkvæmdum sveitarfélagsins.
Gert er ráð fyrir að afkastageta álvers í Reyðarfirði verði 240.000 tonn á ári til að byrja með en að hún verði síðar aukin upp í 360.000 tonn á ári. Tekið er fram í viljayfirlýsingunni að álverið kunni í framtíðinni að verða stækkað í 480.000 tonn, ef/þegar raforka og tilskilin leyfi liggi fyrir.
Reykjavík, 24. maí 2000