Samningur um strandstöðvaþjónustu
Þann 17. apríl sl. féllst samgönguráðherra á að framlengja samning Póst- og fjarskiptastofnunar f.h. ríkisins við Landssíma Íslands hf. um þjónustu við strandarstöðvar. Samningurinn gildir til 1. janúar 2003 hið lengsta.
I.
Áætlaður kostnaður ríkisins vegna þjónustunnar er:
Árið 2000: kr. 172.660.000
Árið 2001: kr. 147.492.000
Árið 2002: kr. 118.648.000
II.
Í strandarstöðvum fer fram mikilvæg starfsemi í þágu öryggis sæfarenda, m.a. rekstur sjálfvirkrar tilkynningarskyldu, rekstur og hlustun á neyðar- og öryggisþjónustu, almenn fjarskiptaþjónusta við skip og útsending á öryggistilkynningum (Navtex) til íslenskra sjófarenda. Heimilt er að skilgreina þessa þjónustu sem sértæka þjónustu í fjarskiptalögum en slíkur kostnaður skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði. Póst- og fjarskiptastofnun gerir samning við fjarskiptafyrirtæki í kjölfar útboðs eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.
III.
Í ljósi þessa telur samgönguráðherra tímabært að líta á fjarskiptaþjónustu við skip í heild sinni og hefja undirbúning að framtíð og fyrirkomulagi strandarstöðvaþjónustu á Íslandi með það fyrir augum að bjóða þjónustuna út eins og mælt er fyrir um í fjarskiptalögum. Áður en af því verður er nauðsynlegt að greina fyrirsjáanlega þörf fyrir hina ýmsu þætti fjarskipta við skip. Ráðherra telur eðlilegt að eftirtaldir aðilar komi að þeirri vinnu: Samgönguráðuneyti, Póst- og fjarskiptastofnun, fjármálaráðuneyti, dóms-og kirkjumálaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Undirbúningsvinna tekur væntanlega 1-2 ár og myndi framangreindur samningur við Landssímann gilda á því tímabili.
Við útboð þjónustunnar mun samgönguráðherra leggja á það áherslu að hún flytji frá Reykjavík út á land.