Nr. 038, 25. maí 2000. Fundur utanríkisráðherra Evró-Atlantshafsbandalagsins.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 35
Á vorfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var í Flórens í dag ítrekaði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra mikilvægi þess að frumkvæði Evrópusambandsins (ESB) í öryggis- og varnarmálum, sem þróast hefði hratt undanfarið, mætti ekki verða til þess að veikja Atlantshafsbandalagið og þær varnarskuldbindingar sem væru grundvöllur þess. Áréttaði utanríkisráðherra mikilvægi þess að ESB tæki ákvörðun á væntanlegum leiðtogaráðsfundi sambandsins í Feira í júní, um að bjóða evrópsku Atlantshafsbandalagsríkjunum sex utan ESB til reglulegrar þátttöku í nýjum öryggismálastofnunum sambandsins. Sagði ráðherra að íslensk stjórnvöld hafi í hyggju að legga af mörkum til sameiginlegra friðaraðgerða á vegum ESB í framtíðinni. Varaði ráðherra jafnframt við því að sköpuð yrði sundrung milli ESB og Atlantshafsbandalagsins. Mikilvægt væri að samtökin tvö tækju upp formleg samskipti hið fyrsta þar sem meðal annars yrði farið yfir möguleika ESB á aðgangi að liðsafla og búnaði bandalagsins svo og þátttöku bandalagsríkjanna sex utan ESB í öryggismálastofnunum sambandsins.
Annað megin viðfangsefni ráðherrafundarins var ástandið á Balkanskaga þar sem nú eru hátt í 70 þúsund manna liðsveitir á vegum bandalagsins. Einnig ræddu ráðherrarnir fyrirhugaða stækkun Atlantshafsbandalagsins og árangur umsókna ríkjanna níu í undirbúningi að hugsanlegri aðild. Í hjálagðri yfirlýsingu fundarins er sérstaklega vísað til málsgreina 27-33 um þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum.
Á fyrsta fundi samstarfsráðs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands (PJC) á ráðherrastigi frá því að loftárásir bandalagsins á Sambandslýðveldið Júgóslavíu hófust, buðu utanríkisráðherrar bandalagsins Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands, velkominn. Í ávarpi sínu sagðist Halldór Ásgrímsson m.a. vonast til þess að þátttaka Rússlands í almannavarnaræfingunni Samvörður 2000 á Íslandi í júní n.k. væri til marks um vilja Rússlands til að hefja á ný fulla þátttöku í samstarfsráði bandalagsins á öllum stigum samstarfsins.
Á morgun er fyrirhugaður ráðherrafundur Evró-Atlantshafsráðsins (EAPC) og einnig samstarfsnefndar Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu (NUC).
Nánari upplýsingar um ráðherrafundina er að finna á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins http://www.nato.int.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 24. maí 2000