Hoppa yfir valmynd
8. júní 2000 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Endurskoðuð reglugerð um skólareglur í grunnskólum nr. 270/2000

Dreifibréf til ýmissa aðila



Menntamálaráðuneytið hefur gefið út endurskoðaða reglugerð um skólareglur í grunnskólum nr. 270/2000. Vinna við endurskoðunina fór aðallega fram í vinnuhópi með fulltrúum frá menntamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Skólastjórafélagi Íslands, Heimili og skóla og umboðsmanni barna.

Í reglugerðinni kemur skýrt fram hvernig skólar eiga að standa að gerð skólareglna í einstökum skólum, hvaða atriði eiga að koma fram í skólareglum og hvernig standa eigi að kynningu á þeim. Í reglugerðinni um skólareglur er einnig kveðið á um hvaða málsmeðferð skuli viðhöfð og hvaða úrræða skólar megi grípa til vegna hegðunar nemenda og tilgreint hvenær gæta þurfi ákvæða stjórnsýslulaga við beitingu viðurlaga. Í reglugerðinni er tilgreint með hvaða hætti skólar skuli hafa samstarf við foreldra vegna hegðunar nemenda og með hvaða hætti skólar skuli vinna að þessum málum í samvinnu við sérfræðiþjónustu skóla og viðkomandi skólanefndir.

Menntamálaráðuneytið vonast til þess að með þessari nýju reglugerð komi enn skýrar fram en áður hvernig skólar skulu stuðla að sem bestum aga í skólum og jákvæðum skólabrag í nánu samstarfi allra aðila skólasamfélagsins. Jákvæður skólabragur er einn hornsteina farsæls skólastarfs og miklu skiptir í því sambandi að reglur séu skýrar.

Bent er á heimasíðu ráðuneytisins, www.mrn.stjr.is þar sem eru ýmsar upplýsingar um skólareglur og aga, m.a. niðurstöður málþings, ýmsir úrskurðir ráðuneytisins á þessu sviði og þar er einnig hægt að nálgast sjálfa reglugerðina

(Maí 2000)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta