Leyfilegur heildarafli á fiskveiðiárinu 2000/2001.
Fréttatilkynning
Leyfilegur heildarafli
á fiskveiðiárinu 2000/2001.
Ráðuneytið hefur í dag gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2000/2001. Fyrir fiskveiðiárið er leyfilegur heildarafli sem hér segir:
- Tegund Lestir
Þorskur 220.000
Ýsa 30.000
Ufsi 30.000
Karfi 57.000
Grálúða 20.000
Steinbítur 13.000
Skarkoli 4.000
Langlúra 1.100
Sandkoli 5.500
Skrápflúra 5.000
Þykkvalúra 1.400
Síld 110.000
Úthafsrækja 20.000
Humar 1.200
Hörpudiskur 9.300
Innfjarðarækja 2.200
Ákvörðun um leyfilegan heildarafla í innfjarðarækju verður endurskoðuð að fengnum nýjum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Þá er gert ráð fyrir að leyfilegur heildarafli loðnu verði 975 þús. lestir á fiskveiðiárinu og af því magni koma um 790 þús. lestir í hlut Íslands.
Síðastliðin 5 ár hefur verið í gildi svokölluð aflaregla í þorski. Hún er þess efnis að einungis er heimilt að veiða 25% af stærð veiðistofns þorsks (meðaltal í upphafi árs og upphafi þess næsta) en þó ekki minna en sem nemur 155 þúsund tonnum hvert fiskveiðiár. Þessi aflaregla var samþykkt af ríkisstjórninni vorið 1995 og tók gildi 1. september 1995. Gert var ráð fyrir að aflareglan kæmi til endurskoðunar að liðnum nokkrum árum frá upphafi hennar.
Eins og kunnugt er hafa orðið miklar sveiflur í stofnstærðarmælingum á þorski milli áranna 1999 og 2000. Væri óbreyttri aflareglu beitt við ákvörðun hámarksafla á þorski fyrir næsta fiskveiðiár yrði aflahámarkið ákveðið 203 þúsund tonn, en var 250 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Svo miklum sveiflum milli ára fylgir augljóst óhagræði.
Sjávarútvegsráðherra hefur því að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnunina ákveðið þær breytingar á aflareglunni að fella niður 155 þúsund tonna lágmarkið en takmarka breytingar á aflahámarki í þorski milli fiskveiðiára þannig að afli milli ára breytist aldrei meira en sem nemur 30 þúsund lestum. Aflahámarkið í þorski verði því samkvæmt nýrri reglu 220 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Reglan gildir bæði til hækkunar og lækkunar, þannig að á næsta fiskveiðiári þ.e. 2001-2002 gæti hámarksafli ekki orðið hærri en 250 þúsund tonn.
Þessi nýja regla mun, þegar litið er til næstu framtíðar ekki síður hafa jákvæð áhrif á viðgang þorskstofnsins en eldri reglan, en mun draga úr sveiflum í ákvörðun um hámarksafla milli ára.
Sjávarútvegsráðuneytið
15. júní 2000.
15. júní 2000.