Hoppa yfir valmynd
16. júní 2000 Heilbrigðisráðuneytið

-Nýir vikulegir fréttapistlar - 10. - 16. júní - Nánar um Gigtarráð

Gigtarráð
Skipað af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


Stofnun Gigtarráðs

Í árslok 1995 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Ingibjörg Pálmadóttir í gigtarráð, en sama ár skilaði nefnd á vegum ráðuneytisins skýrslu um gigtarmálefni sem nefnd var "Landsáætlun um gigtarvarnir". Ein af tillögum nefndarinnar var að ráðinu yrði komið á fót og í þeim tilgangi að fylgja eftir landsáætluninni.
Í ráðið var skipað með eftirfarandi hætti: Arnþrúður Karlsdóttir fjölmiðlafræðingur formaður ráðsins, Halldór Jónsson læknir, bæði tilnefnd af heilbrigðis- tryggingamálaráðuneyti, Kristján Steinsson læknir varaformaður ráðsins, tilnefndur af Háskóla Íslands, Sigurður Thorlacius læknir tilnefndur af Tryggingastofnun ríkisins, en fljótlega tók við sæti hans Halldór Baldursson læknir, Júlíus Valsson læknir tilnefndur af Læknafélagi Íslands, Emil Thóroddsen framkvæmdarstjóri og Unnur Stefanía Alfreðsdóttir iðjuþjálfi, bæði tilnefnd af Gigtarfélagi Íslands. Sólveig Guðmundsdóttir yfirlögfræðingur var skipuð ritari ráðsins.
Halldór Jónsson læknir hvarf fljótlega til starfa erlendis og var enginn skipaður í hans stað fyrr en í ár, þá ráðherra skipaði aftur í ráðið til fjögurra ára. Ólafur Þór Gunnarsson læknir var þá skipaður fyrir Halldór, en ráðið er annars skipað óbreytt frá fyrra tímabili.

Starf Gigtarráðs
Frá upphafi hefur Landsáætlun um gigtarvarnir verið leiðarljós umræðu og aðgerða ráðsins. Í stuttu máli hefur starf ráðsins verið með eftirfarandi hætti.
Ráðið hefur beitt sér fyrir eflingu íslenskra gigtarrannsókna með beinum og óbeinum stuðningi við rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum sem starfar á Landspítala. Rannsóknarstofan er í dag viðurkennd sem áhugaverður og spennandi samstarfsaðili í alþjóðlegu samstarfi á gigtarrannsóknum, einkum hvað varðar rannsóknir á rauðum úlfum og iktsýki.
Ráðið hefur beitt sér fyrir aukinni fræðslu um gigtarsjúkdóma með beinum fjárhagslegum stuðningi við útgáfu á fræðsluefni og þekkingarmiðlun um gigtarsjúkdóma, greiningu þeirra, meðferð og áhrif.
Ályktað hefur verið um ýmis málefni, m.a. endurhæfingu, nám í iðjuþjálfun og réttindamál ýmiskonar, ásamt því voru sendar ýmsar ábendingar til heilbrigðis-yfirvalda um ákv. efni.
Ráðið hefur leitað eftir og fengið heimsóknir landlæknis, yfirtryggingalæknis, ofl. í þeim tilgangi að ræða ýmis málefni, m.a. reglur um kostnað við endurhæfingu. Einnig hefur ráðið heimsótt og fundað á nokkrum stöðum sem að endurhæfingu gigtsjúkra koma.
Fjárhagslega hefur ráðið stutt rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum (stöðu líffræðings í 3 ár við stofuna). Með beinum fjárframlögum hefur verið stutt við þverfaglega 300 manna norræna gigtarráðstefnu, Reuma 97, sem haldin var í Reykjavík árið 1997, útgáfu á slitgigtarbæklingi, gerð myndbands um gigt er nefnist "Úr vítahring verkjanna" (hefur verið sýnt fimm sinnum með reglulegu millibili á Stöð 2), útgáfu á beinþynningarbæklingi, vinnslu námsefnis sjálfshjálparnámskeiða, stofnunar og reksturs símaráðgjafar 1999 (Gigtarlínu GÍ) fyrir gigtarfólk, aðstandendur þeirra og fagfólk.
12. október 1999 stóð ráðið fyrir gigtarþingi ásamt Gigtarfélagi Íslands og gigtardeild Landspítala, en gigtardeildin varð 30 ára á síðasta ári. Þá hefur ráðið einnig styrkt og kostað einstaklinga innan ráðsins til þátttöku á ráðstefnum erlendis er varða gigtarmálefni s.s. til farar á "Reuma 99" í Bergen, "Bone and Joint decade" ráðstefnu og fund í Svíþjóð og ráðstefnu Arthritis&Rheumatism Inernational í Atlanta.

Framtíðarverkefni
Þörf er á endurskoðun á Landsáætlun um gigtarvarnir, stöðugreiningar á þeim málefnum sem þar voru tekin fyrir og áherslur ráðsins fyrir nánustu framtíð mótaðar.
Verulegur skortur er á upplýsingum um hagi gigtarfólks á Íslandi og ljóst að gerð rannsóknaráætlunar um þau málefni er brýn, sem og að hefjast handa.
Hagsmunamál allra gigtsjúkra er að heildstæð stefna verði mótuð í endurhæfingarmálum í víðum skilningi þess orðs, (læknisfræði-, starfs- og félagsleg) jafna þarf aðstöðu landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis varðandi þjónustu fagaðila og aðgengis að öðrum úrræðum er varða daglegt líf gigtsjúkra.
Áratugur beina og liða er gengin í garð og ýmis verðug verkefni álitleg í því sambandi, en einhver aðili verður að taka að sér að samhæfa krafta þeirra sem að þeim málum koma.

08.06.2000 / Emil Thóroddsen









Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta