Sameiginleg fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins um ráðherrafund OECD í París 26.-27. júní 2000
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu og
fjármálaráðuneytinu
_______
Dagana 26.-27. júní 2000 var haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD. Fundinn sátu fyrir Íslands hönd Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, og Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri, í fjarveru utanríkisráðherra.
Á fundinum var fjallað um stöðu efnahagsmála, einkum í ljósi hins svokallaða nýja hagkerfis. Einnig var skipst á skoðunum um áframhaldandi starf OECD á sviði líftækni og öryggi matvæla. Þá var rætt um horfur í alþjóðaviðskiptum og undirbúning fyrir nýja viðræðulotu á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Að lokum voru samþykktar endurskoðaðar leiðbeiningareglur fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki, sem ætlað er að stuðla að alþjóðlegri fjárfestingu og stöðugleika í starfsumhverfi þeirra.
Í umræðum um efnahagsmál kom fram að staða og horfur í efnahagsmálum í aðildarríkjum OECD eru vænlegri nú en um margra ára skeið. Hagvöxtur í flestum ríkjum er mikill, verðbólga lág og atvinnuleysi hefur minnkað verulega. Svipaða sögu er að segja af mörgum ríkjum utan samtakanna sem hefur tekist vel til við að vinna bug á þeim erfiðleikum sem þau lentu í á árunum 1997-1998. Ráðherrarnir töldu mikilvægt að varðveita og treysta þann árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum að undanförnu og fylgja áfram aðhaldssamri efnahagsstjórn.
Ráðherrarnir fjölluðu einnig um hið svokallaða nýja hagkerfi og áhrif þess á mikinn hagvöxt að undanförnu. Í umræðunum kom fram að vöxtur og viðgangur nýrra atvinnugreina, einkum á sviði hátækni og upplýsingamiðlunar, hefur átt drjúgan þátt í hagvexti undanfarinna ára, ekki einungis í Bandaríkjunum heldur einnig annars staðar, meðal annars á Norðurlöndunum.
Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, benti á að þessara áhrifa hefði gætt í ríkum mæli á Íslandi og ætti drjúgan þátt í þeim mikla hagvexti sem orðið hefði á undanförnum árum. Jafnframt taldi hann að þessi áhrif ættu eftir að skila sér til annarra og hefðbundnari greina, sem myndi skila sér í auknum hagvexti þegar fram í sækir. Í þessu sambandi væri mikilvægt að stjórnvöld tryggðu efnahagslegan stöðugleika og sköpuðu almenn efnahagsleg skilyrði fyrir öflugu atvinnulífi. Hins vegar mættu menn ekki halda að þessi þróun, þ.e. nýja hagkerfið, leysti öll vandamál. Enn væri mikilvægt að halda vöku sinni í hagstjórn og hafa gætur á "gömlu" vandamálunum, svo sem verðbólgu og umframeftirspurn í hagkerfinu.
Umræður um líftækni og öryggi matvæla tóku mið af þeim miklu tækifærum, en jafnframt áhættum, sem fylgt geta tækniframförum og þýðingu þeirra fyrir mannkynið. Ráðherrar undirstrikuðu nauðsyn þess að að styrkja alþjóðasamstarf og stuðla að auknum skilningi á álitaefnum við áhættumat svo ávinningur af tækniframförum gæti skilað sér til fulls.
Í máli Íslands var lögð áhersla á mikilvægi OECD í vísindasamstarfi og nauðsyn þess að grundvalla stefnumörkun á vísindalegri þekkingu og reynslu, að teknu tilliti til varúðarreglunnar þar sem slíkt ætti við. Mikilvægt væri að viðhalda almenningstrausti gagnvart tækniframförum með ábyrgri og upplýstri umfjöllun.
Umræður um alþjóðaviðskipti beindust fyrst og fremst að leiðum til að hefja nýja viðræðulotu um frekara frjálsræði í viðskiptum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Einkum ræddu ráðherrar hvernig koma mætti til móts við sjónarmið þróunarríkja, sem telja sig að miklu leyti hafa farið varhluta af ávinningi aukins viðskiptafrelsis og alþjóðavæðingar. Þá var skipst á skoðunum um frekara gagnsæi hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis. Einhugur ríkti um að ýta nýrri viðskiptalotu úr vör eins fljótt og auðið er og stuðla þar með að aukinni hagsæld fyrir alla jarðarbúa.
Af hálfu Íslands var undirstrikað að ný viðræðulota yrði að leggja sitt af mörkum til markmiðsins um sjálfbæra þróun. Í því sambandi var lögð sérstök áhersla á afnám styrkja til sjávarútvegs. Að frumkvæði Íslands er í yfirlýsingu fundarins kveðið á um nauðsyn þess að byggja upp fiskistofna og koma í veg fyrir ofveiði. Aðgerðir ríkja í þágu þessa markmiðs megi þó ekki hafa viðskiptatruflandi áhrif.
Hægt er að nálgast yfirlýsingu ráðherrafundarins á heimasíðu OECD: www.oecd.org
Utanríkisráðuneytið,
fjármálaráðuneytið
Reykjavík, 27. júní 2000