Auknar niðurgreiðslur á raforku til hitunar íbúðarnúsnæðis
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 14/2000
Í fjárlögum yfirstandandi árs voru fjárveitingar til niðurgreiðslu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis auknar um 160 milljónir kr. eða úr 600 milljónum kr. í 760 milljónir kr. Í samræmi við tillögur nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði sl. vor hefur ráðherra ákveðið að auka niðurgreiðslur á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis. Niðurgreiðslurnar eru auknar með tvennum hætti þar sem þær ná nú til allt að 50.000 kWh notkunar á ári en á síðasta ári var miðað við allt að 30.000 kWh notkun á ári auk þess sem upphæð niðurgreiðslna á orkueiningu eru auknar. Þessi hækkun á niðurgreiðslum ríkisins kemur til framkvæmda nú þegar. Við lok þessa árs verður framkvæmt sérstakt uppgjör vegna tímabilsins frá 1. janúar sl. og þar til hækkunin kom til framkvæmda. Fyrir þá sem hlut eiga að máli verður reiknuð eingreiðsla frá þeim tíma og þar til breytingar voru gerðar á gjaldskrám orkufyrirtækja.
Þessar aðgerðir lækka hitunarkostnaðinn verulega hjá þeim sem nota meiri orku til hitunar íbúðarhúsa en sem samsvarar meðalnotkun og sem dæmi lækkar kostnaður hjá notanda sem notar 50.000 kWh á ári á algengasta hitunartaxtanum hjá Rafmagnsveitum ríkisins úr um 160 þúsund kr. á ári í um 101 þúsund kr. eða um 37%. Notandi sem kaupir 30.000 kWh á þessum taxta greiðir nú um 67 þúsund kr. á ári í stað 73 þúsund kr. sem er um 8% lækkun. Meðalnotkun á þessum taxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins er um 33.000 kWh á íbúð á ári.
Niðurgreiðslur miðast við allt að 50.000 kWh notkun á íbúð á ári og eru einungis um 1,4% af notkun á fyrrnefndum taxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins yfir þessum mörkum. Húsráðendur sem nota meira þurfa að greiða fullt verð fyrir þann hluta orkunotkunarinnar sem er umfram 50.000 kWh á ári.
Árlegur kostnaður fjölskyldu sem notar 30.000 kWh á ári og býr á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins væri rúmlega 156 þúsund kr., ef ekki kæmu til niðurgreiðslur ríkissjóðs, afsláttur orkufyrirtækjanna og endurgreiðsla á hluta af virðisaukaskatti. Kostnaðurinn er hins vegar 67 þúsund kr. og notandinn greiðir því um 43% af fullu verði. Notandi með 50.000 kWh mundi aftur á móti greiða 248 þúsund kr. ef þessar aðgerðir væru ekki til staðar í stað 101 þúsund kr. eða 41% af fullu verði.
Þessar aðgerðir eru í samræmi við byggðaáætlun fyrir árin 1999-2001 sem Alþingi samþykkti vorið 1999.
Reykjavík, 28. júní 2000.