Bætt umferðarmenning-burt með mannfórnir.
Bætt umferðarmenning-burt með mannfórnir
Á ráðstefnunni ,,Bætt umferðarmenning - burt með mannfórnir" sem dómsmálaráðherra boðaði til í vor var lýst yfir að efnt yrði til umferðarátaks í sumar. Á næstu vikum og mánuðum verður blásið til sóknar gegn slysum og manntjóni í umferðinni. Annars vegar verður fræðslu- og kynningarherferð í fjölmiðlum sem beinist til vegfarenda, sérstaklega að ungum ökumönnum. Herferðinni er ætlað að vekja þá til umhugsunar um hvernig draga megi úr slysum í umferðinni og verður áhersla lögð á að höfða til skynsemi ungs fólks fremur en að reka hræðsluáróður. Hins vegar tekur lögreglan þátt í átakinu með hertri umferðarlöggæslu sem beinist sérstaklega að ökuhraða, notkun öryggisbelta og ölvunarakstri sem eru helstu orsakir alvarlegra umferðarslysa. Að átakinu standa ásamt dómsmálaráðherra, lögreglan, Vegagerðin, Umferðarráð og fjöldi fyrirtækja. Einnig hafa margir fjölmiðlar gengið til liðs við átakið.
Umferðarslys og afleiðingar þeirra eru þjóðinni dýr. Á síðustu 5 árum hafa 110 manns látist í umferðinni, þar af fimmtán á þessu ári. Manntjón sem hljótast af umferðarslysum eru með öllu óviðunandi. Allt of margir landsmenn í blóma lífsins bíða þess seint eða aldrei bætur að hafa lent í umferðarslysum. Þjóðin þarf að staldra við í þessum efnum, hugsa ráð sitt og láta af mannfórnum í umferðinni.
Öflugra eftirlit og sýnilegri löggæsla
Einn þáttur átaksins er að auka umferðareftirlit og gera lögregluna sýnilegri. Vegaeftirlit verður eflt með samstarfi Vegagerðarinnar og Ríkislögreglustjóra. Embættin munu í sameiningu gera út fjóra nýja bíla fyrir eftirlit með umferð á þjóðvegum. Bílarnir verða merktir Vegagerð og lögreglu og búnir forgangsljósum. Í bílunum verður einn lögreglumaður auk starfsmanns frá Vegagerðinni. Viðkomandi lögreglumaður getur tekið á hvers kyns lögbrotum svo sem hraðakstri, ölvunarakstri, akstri án bílbelta o.sfrv. Auk þess verður fylgst grannt með upplýsingum sem skráðar eru í ökurita um hvíldartíma atvinnubílstjóra o.fl. Með þessu fyrirkomulagi stóreflist löggæsla á þjóðvegunum
Ríkislögreglustjóri og lögregluembættin í landinu taka þátt í átakinu og hafa nú þegar skipulagt öflugra umferðareftirlit. Í hverjum landshluta munu lögregluliðin taka sig saman um að forgangsraða með markvissum hætti með það að markmiði að menn og tæki nýtist sem best til að draga úr umferðarslysum. Ætlunin er að fylgjast sérstaklega með hraðakstri, beltanotkun ökumanna og ölvunarakstri. Þá verða lögreglubifreiðar með hraðamyndavélum og öndunarsýnamælum á ferð um landið.
Höfðað til ungra ökumanna
Tölur um slys og óhöpp í umferðinni sýna að yngstu ökumennirnir eru í sérstökum áhættuhópi. Í átakinu verður reynt að vekja unga ökumenn sérstaklega til umhugsunar um umferðina og hvernig megi bæta hana. Ætlunin er að höfða til skynsemi ungs fólks og hvetja það til að muna eftir beltunum, draga úr hraðanum og ekki síst minna á að áfengi og akstur fara aldrei saman. Í ljósi þess að umferðaslysum hér á landi fer fjölgandi er hér á ferðinni mikilvægt umferðarátak sem hefur það að markmiði að fá unga ökumenn til að velta því fyrir sér hvort þeir geti ekki lagt sitt að mörkum til betri umferðarmenningar.
Til að skilaboðin verði sem áhrifaríkust hefur þekkt ungt fólk gengið í lið með aðstandendum átaksins til þess að leiðbeina jafnöldrum sínum um hvernig á að hegða sér undir stýri, hvort sem er úti á vegum eða í þéttbýli. Hér er um að ræða ungt sjónvarps- og útvarpsfólk sem ætlar að tala beint til ungra ökumanna og hvetja þá til þess að láta skynsemina ráða í akstri. Skilaboðum átaksins verður komið á framfæri á jákvæðan og skemmtilegan hátt með líflegri framsetningu. Vonandi sjá allir fjölmiðlar sér fært að taka þátt í þessu átaki.
Allir leggist á eitt
Í svo viðamiklu umferðarátaki er mikilvægt að allir leggist á eitt svo að vel takist til. Þeir aðilar sem taka þátt í átakinu eru lögreglan, Vegagerðin, Umferðarráð, ýmsir fjölmiðlar og fyrirtæki. Þegar hafa tryggingafélög, olíufélög, bílaumboð o.fl. ákveðið að vera með. Ætlunin er að sækja stuðning úr enn fleiri áttum, enda er breið samstaða forsenda árangurs í umferðarmálum.
Við þurfum breiða samstöðu ef við ætlum að ná árangri!
Frekari upplýsingar veitir:
Ingvi Hrafn Óskarsson, aðstoðarmaður ráðherra.
S. 560-9010, 863-2365.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
18. júlí 2000.
18. júlí 2000.