Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ræða dómsmálaráðherra á fundi um umferðardag hjá lögreglunni í Reykjavík

Ræða dómsmálaráðherra á fundi um umferðardag hjá lögreglunni í Reykjavík, 25.8.2000



Lögreglustjóri, Böðvar Bragason,
Góðir gestir

Ég vil byrja á því að óska Lögreglunni í Reykjavík og okkur öllum til hamingju með vel heppnaðan Umferðardag í gær. Ég tel fullyrt að umferðin í borginni var með besta móti. Sést það best á því að komu upp 14 mál í gær, 25 á sama degi í fyrra. Þannig hefur tekist að fá fleiri ökumenn til að sýna meiri tillitssemi og aðgát í umferðinni og tilætluðum árangri náð.

Því miður urðu tvö minni háttar slys í gærkvöldi, sem er þó fækkun miðað við sama dag í fyrra. Þetta minnir okkur vissulega á að átak sem þetta er aðeins eitt skref í átt til meira umferðaröryggis og bættrar umferðarmenningar. Við eigum mörg skref eftir.

Við höfum hert tökin í umferðarmálum allverulega. Í júlí boðaði ég til átaks í umferðarmálum undir yfirskriftinni "Bætt umferðarmenning – burt með mannfórnir". Í framhaldi af því hefur umferðareftirlit verið eflt, samvinna lögregluumdæma aukist, umræða um umferðarmál verið vakin hressilega upp og fræðsla og áróður um umferðarmál verið fyrirferðamikill í fjölmiðlum. Og nú síðast stendur Lögreglan í Reykjavík fyrir vel heppnuðum umferðardegi.

Engin af þessum aðgerðum hefur verið hugsuð sem einhvers konar skyndilausn. Þetta er hluti af langtímaverkefni sem miðar að slysalausri umferð.

Þessi góði árangur er vitnisburður um hvers megnug lögreglan er og árangurinn er sýnilegur í tölum um fækkun slys og umferðaróhappa, sem Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, mun gera betur grein fyrir hér á eftir. Hitt er þó ekki síður mikilvægt, þó ekki sé það jafn áþreifanlegt, að þessi dagur hefur án efa styrkt tengsl borgaranna og lögreglunnar. Lögreglan í Reykjavík tók tali mörg hundruð ökumenn í gær og borgarbúar sem áttu leið um götur borgarinnar fundu án efa fyrir þessu aukna eftirlit. Mér er kunnugt um að margir höfðu samband við lögregluna og þökkuðu fyrir framtakið. Staðreyndin er sú að flestir vilja öruggari umferð, jafnvel þótt það hafi í för með sér að þeir komist aðeins seinna á leiðarenda.

Þá finnst mér ástæða til þess að þakka fjölmiðlafólki sérstaklega fyrir þeirra mikla áhuga og þátt þeirra í þessu máli almennt.

Ég tel að þessi góði árangur hér í Reykjavík sé tilefni til þess að lögregluembætti út um land allt standi fyrir svipuðum degi. Ég mun beita mér fyrir því að svo geti orðið og verður erindi þess efnis frá dómsmálaráðuneytinu sent til allra lögreglustjóra innan skamms. Nú er sá tími ársins sem skólarnir hefja starf sitt og ber einnig að taka mið af því.

Ég vil að lokum þakka öllum Lögreglunni í Reykjavík fyrir Umferðardaginn, sem ég vona svo sannarlega að verði endurtekinn fyrr en síðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta