Hoppa yfir valmynd
1. september 2000 Heilbrigðisráðuneytið

26. ágúst - 1. september

Fréttapistill vikunnar
26. ágúst - 1. september

Gildismat í heilbrigisþjónustu - hver er framtíðin?
Þetta var yfirskrift 16. norrænu ráðstefnunnar um sjúkrahús-og heilbrigðismál sem lauk í Reykjavík í dag [1. september]. Um 500 manns sátu ráðstefnuna. Fyrirlesarar voru frá Norðurlöndunum og eins og yfirskriftin ber með sér ræddu menn siðfræði, sjúklinginn, Hippokrates og Adam Smith á ráðstefnunni. Umfjöllunarefni voru margvísleg s.s. rannsóknir, genalækningar, markaðslausnir og réttur einstaklinga á þjónustu. Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hélt ræðu á ráðstefnunni þar sem hún talaði meðal annars um þá hugmyndafræði sem heilbrigðiskerfi Norðurlandaþjóðanna byggjast á. Hún sagði að þótt uppbygging þessara kerfa sætti margvíslegri gagnrýni litu margar þjóðir öfundaraugum til einmitt þessa fyrirkomulags, þar sem sjúklingurinn er í fyrirrúmi og allir njóta sömu þjónustu, óháð stöðu eða efnahag. Allir fyrirlestrar og upplýsingar um ráðstefnuna munu birtast á heimasíðu NHS 2000 á næstunni. Slóðin er: http://www2.rsp.is/congress/


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið 30 ára.
Um þessar mundir eru þrjátíu ár liðin frá stofnun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Með gildistöku laga um Stjórnarráð Íslands, 1. janúar 1970, var ráðuneytum fjölgað og nýtt ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála varð til. Fyrstu átta mánuðina var ekkert starfslið í ráðuneytinu, en ráðherrann Eggert G. Þorsteinsson hafði settan ráðuneytisstjóra Hjálmar Vilhjálmsson, sem var ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Fyrstu starfsmenn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins voru skipaðir frá 1. september 1970. Páll Sigurðsson læknir sem ráðuneytisstjóri, Jón Ingimarsson, lögfræðingur sem skrifstofustjóri og þær Ragnhildur E. Þórðardóttir og Fjóla Haraldsdóttir sem stjórnarráðsfulltrúi og ritari. Segja má að frá byrjun hafi öll mál sem á einhvern hátt tengdust heilbrigðis- og tryggingamálum verið felld undir ráðuneytið. Gífurlegar breytingar og framfarir hafa orðið á öllum sviðum heilbrigðis- og tryggingamála frá þeim tíma sem ráðuneytið var stofnað. Það er til marks um hve þau verkefni sem heyra undir ráðuneytið eru umfangsmikil að stærstum hluta útgjalda ríkissjóðs er stýrt af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.


Málþing í Norræna húsinu um einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum.
Samtök Heilbrigðisstétta gangast fyrir málþingi í Norræna húsinu, föstudaginn 8. september, þar sem fjallað verður um einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum. Þorsteinn Sæmundsson, lögfræðingur hjá Sjóvá-Almennum mun fjalla um einkavæðingu sjúkratrygginga. Aðrir frummælendur eru; Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og alþingismaður og Þórir Schiöth, formaður Tannlæknafélags íslands. Fundarstjóri er Tómas Zoëga, yfirlæknir á Geðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Málþingið hefst kl. 12 á hádegi og stendur til 15:00.


Ráðstefna um vímuefnaneytendur og afbrot, 6. september.
Háskóli Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið efna til ráðstefnu um vímuefnaneytendur og afbrot í hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands miðvikudaginn 6. september kl. 13:00-16:50. Frummælendur verða dr. Bruce Ritson, geðlæknir við Royal Hospital of Edinburgh og ráðgjafi á sviði vímuefna- og afbrotamála hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), og dr. Harvey Milkman, prófessor í sálarfræði við Denver-háskólaog höfundur fjölmargra bóka um vímuefnaneyslu og afbrot. Í lok ráðstefnunnar verða pallborðsumræður.
Dagskrá ráðstefnunnar >

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
1. september 2000










Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta