Hoppa yfir valmynd
4. september 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp á námskeiði um persónueftirlit á landamærum

Ávarp á námskeiði um persónueftirlit á landamærum, 4. september 2000


Góðir gestir.

Undirbúningur námskeiðs fyrir þá sem annast persónueftirlit á landamærum hefur nú staðið yfir um alllangt skeið. Ég hef fylgst með þeim undirbúningi af áhuga enda er það kappsmál allra aðildarríkja að Schengen samkomulaginu að búið sé svo um hnúta að hægt verði að uppfylla þær auknu kröfur um öryggi og skilvirkni sem samkomulagið byggir á. Það er því sérstakt ánægjuefni fyrir mig að fá að ávarpa ykkur hér á fyrsta degi framhaldsnámskeiðsins.

Eitt af undirliggjandi markmiðum Schengen samkomulagsins er að stemma stigu við skipulagðri glæpastarfsemi af ýmsu tagi, þ.á m. ólöglegum flutningi fólks landa og heimsálfa á milli. Í sívaxandi mæli leitast óprúttnir aðilar við að gera sér neyð bágstadds fólks að gróðalind með loforðum um gull og græna skóga á Vesturlöndum. Þessi ,,atvinnuvegur", ef svo mætti nefna hann, virðist vera orðinn stór hluti af starfsemi alþjóðlegra glæpasamtaka og getum er leitt að því að ágóðinn af smygli á fólki sé notaður til að fjármagna aðra og enn skuggalegri glæpi. Óþarft er að fjölyrða um þetta vandamál í þessum hópi en öllum má ljóst vera að hér er um vandamál að ræða sem gera má ráð fyrir að fari vaxandi á næstu árum verði ekkert að gert. Það er því blátt áfram nauðsynlegt að íslenskir landamæraverðir fái, til jafns við starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum, markvissa þjálfun sem nýst getur þeim í starfi. Aukinn hraði og tækni á öllum sviðum samfélagsins gera óhjákvæmilega meiri kröfur til þeirra er sinna löggæslu og tollgæslu. Sjálf fer ég í starfi mínu sem dóms- og kirkjumálaráðherra ekki varhluta af slíkum kröfum. Ég geri mér fulla grein fyrir þeim vanda sem við ykkur blasir og hef reynt eftir fremsta megni að styðja við ykkur í þeim mikilvægu störfum sem þið gegnið. Mér hefur þótt mikið til um þann góða árangur sem náðst hefur þrátt fyrir að okkur sé af fjárhagslegum ástæðum skorinn þrengri stakkur en við hefðum kosið. Stuðning minn eigið þið þó vísan eftir sem áður.

Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á það að löggæsla verði efld eftir fremsta megni, þ.m.t. að menntun og þjálfun lögreglumanna verði bætt og hef ég af þeim sökum sýnt starfi Lögregluskóla ríkisins áhuga og stuðning. Með hliðsjón af þeim skyldum sem íslenska ríkið hefur tekist á herðar með aðild að Schengen samkomulaginu hef ég lagt á það áherslu að íslenskir lögreglumenn og aðrir þeir er koma að landamæravörslu og tengdum málaflokkum, fái alla þá tilsögn og þjálfun sem unnt er að veita.

Í kjölfar fundar sem ég átti með Janet Reno í nóvember síðastliðnum hefur komist á samvinna milli íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda og hef ég í viðræðum mínum við bandaríska embættismenn, sem hingað hafa komið síðan, orðið vör við mikinn velvilja bandarískra yfirvalda og höfum við þegar uppskorið ríkulega af því samstarfi sem komist hefur á í kjölfarið. Sú staðreynd að hingað séu komnir einhverjir færustu sérfræðingar Bandaríkjanna í málefnum er lúta að landamæravörslu, er aðeins eitt dæmið um það hverju aukin samvinna okkar við bandarísk stórnvöld er að skila okkur og þakka ber sérstaklega fyrir.

Mr. John Hughes, I would like to take this opportunity to thank you especially for the positive results from our meeting in January, which I am witnessing here. It is of great value for us to have such distingushed instructors as yourself and your team (Ann C. Hurst, Timothy J. Goyer and Bo Nimand Larsen) coming here to help prepairing our border guards for the tasks ahead. Thank you all very much.

Ýmsir hafa lagt hönd á plóginn til að gera þetta námskeið eins vel úr garði og kostur er, en Eiríkur Hreinn Helgason yfirlögregluþjónn hefur þó borið hitann og þungann af undirbúningnum og vil ég þakka honum sérstaklega fyrir það góða starf sem hann hefur skilað hér.

Það er von mín að þetta námskeið verði ykkur, og þar með þjóðinni allri, að gagni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta