Hoppa yfir valmynd
14. september 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 061, 14. september 2000. Opinber heimsókn frú Wu Yi til Íslands.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu




Nr. 061


Frú Wu Yi, meðlimur kínverska ríkisráðsins, æðsta handhafa framkvæmdavaldsins í Kína, kemur í opinbera heimsókn til Íslands dagana 15.- 19. september næstkomandi, í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.

Frú Wu Yi var utanríkisviðskiptaráðherra Kína árin 1993 - 1998 og sinnir nú sérstaklega viðskiptamálum í ríkisráðinu. Hún mun eiga samráðsfund með Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra um gagnkvæm samskipti ríkjanna og samstarf á alþjóðavettvangi.

Einnig mun frú Wu Yi eiga fundi með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og borgarstjóranum í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þá mun hún heimsækja forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, að Bessastöðum.

Margvísleg og vaxandi samskipti Íslands og Kína á sviði viðskipta verða efst á baugi í heimsókninni. Verður frú Wu Yi m.a. kynnt sérstaklega starfsemi íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og nýtingu jarðhita.

Talið er að jarðhita sé að finna á nálægt þrjú þúsund svæðum í Kína og skiptir miklu fyrir kínversk stjórnvöld að auka nýtingu þessarar auðlindar meðal annars til að draga úr loftmengun í stærstu borgum landsins. Í þeim tilgangi hefur að frumkvæði íslenska sendiráðsins í Kína verið komið á nýjum tengslum milli íslenskra fyrirtækja er hafa sérhæft sig í nýtingu jarðvarma og kínverskra stjórnvalda. Hinn 23. ágúst síðastliðinn voru undirritaðir tveir samningar milli Virkis hf., Orkuveitu Reykjavíkur og borgaryfirvalda í Beijing um mjög víðtækt jarðhitasamstarf. Samningarnir gera ráð fyrir nánu samstarfi um lagningu og rekstur hitaveitu fyrir hundruð þúsunda íbúa í tveimur byggðarlögum á höfuðborgarsvæðinu.

Frú Wu Yi mun taka þátt í ráðstefnu um viðskiptatækifæri í Kína sem VUR, Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráð Íslands efna til á Hótel Loftleiðum næstkomandi mánudag, 18. september kl. 9.00-13.00.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 14. september 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta