Nr. 061, 14. september 2000. Opinber heimsókn frú Wu Yi til Íslands.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 061
Frú Wu Yi, meðlimur kínverska ríkisráðsins, æðsta handhafa framkvæmdavaldsins í Kína, kemur í opinbera heimsókn til Íslands dagana 15.- 19. september næstkomandi, í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.
Frú Wu Yi var utanríkisviðskiptaráðherra Kína árin 1993 - 1998 og sinnir nú sérstaklega viðskiptamálum í ríkisráðinu. Hún mun eiga samráðsfund með Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra um gagnkvæm samskipti ríkjanna og samstarf á alþjóðavettvangi.
Einnig mun frú Wu Yi eiga fundi með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og borgarstjóranum í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Þá mun hún heimsækja forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, að Bessastöðum.
Margvísleg og vaxandi samskipti Íslands og Kína á sviði viðskipta verða efst á baugi í heimsókninni. Verður frú Wu Yi m.a. kynnt sérstaklega starfsemi íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og nýtingu jarðhita.
Talið er að jarðhita sé að finna á nálægt þrjú þúsund svæðum í Kína og skiptir miklu fyrir kínversk stjórnvöld að auka nýtingu þessarar auðlindar meðal annars til að draga úr loftmengun í stærstu borgum landsins. Í þeim tilgangi hefur að frumkvæði íslenska sendiráðsins í Kína verið komið á nýjum tengslum milli íslenskra fyrirtækja er hafa sérhæft sig í nýtingu jarðvarma og kínverskra stjórnvalda. Hinn 23. ágúst síðastliðinn voru undirritaðir tveir samningar milli Virkis hf., Orkuveitu Reykjavíkur og borgaryfirvalda í Beijing um mjög víðtækt jarðhitasamstarf. Samningarnir gera ráð fyrir nánu samstarfi um lagningu og rekstur hitaveitu fyrir hundruð þúsunda íbúa í tveimur byggðarlögum á höfuðborgarsvæðinu.
Frú Wu Yi mun taka þátt í ráðstefnu um viðskiptatækifæri í Kína sem VUR, Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráð Íslands efna til á Hótel Loftleiðum næstkomandi mánudag, 18. september kl. 9.00-13.00.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 14. september 2000.