Hoppa yfir valmynd
15. september 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 063, 15. september 2000. 55. allsherjarþing SÞ í New York

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________

Nr. 063


Undanfarna daga hefur Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, setið 55. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Jafnframt hefur hann átt tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Indlands, Makedóníu, Króatíu og Ungverjalands. Auk þess hitti hann utanríkisráðherra eða formenn sendinefnda sex ríkja til að tala fyrir norræna framboðinu til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, en að þessu sinni er Noregur í framboði fyrir hönd Norðurlanda.
Í gær, 14. september, héldu utanríkisráðherrar þeirra sex Evrópuríkja sem ekki eru í Evrópusambandinu (ESB) fund í New York um evrópsk öryggis- og varnarmál með Javier Solana, háttsettum embættismanni ESB í utanríkismálum.
Í dag flutti utanríkisráðherra ræðu í almennri umræðu allsherjarþingsins. Í henni fjallaði hann m.a. um friðargæslu, afvopnunarmál, mannréttindi, fátækt og þróunarmál, alþjóðavæðingu, sjálfbæra þróun og nýtingu auðlinda hafsins.
Í upphafi ræðunnar fagnaði ráðherra nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um friðargæslu og lagði áherslu á að tillögur hennar kæmu sem fyrst til framkvæmda. Hann vakti athygli á framlagi Íslands til friðargæslu á Balkanskaga og sagði íslensk stjórnvöld ráðgera að styrkja friðargæslu Íslands enn frekar.
Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi alþjóðlega sakadómstólsins fyrir framþróun alþjóðlega réttarkerfisins. Ísland hefur fullgilt stofnsáttmála dómstólsins og skoraði ráðherra á önnur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að gera slíkt hið sama.
Utanríkisráðherra áréttaði mikilvægi þess að stöðva ofbeldi í Kosovo. Kosovobúar hefðu fyrir tilstuðlan alþjóðasamfélagsins fengið einstakt tækifæri til að byggja upp réttlátt samfélag þar sem mannréttindi og réttindi minnihlutahópa væru virt. Það tækifæri yrðu þeir að nýta sér til að friður yrði varanlegur.
Ráðherra lofaði öryggisráðið fyrir að hafa tekið til umræðu það alvarlega ástand og ógn við alþjóðlegt öryggi sem skapast hefur af völdum alnæmisvandans, sérstaklega í sunnanverðri Afríku. Hann fagnaði nýlegri ákvörðun um að halda sérstakt aukaallsherjarþing um alnæmisvandann og aðgerðir til úrlausnar.
Ráðherrann lagði áherslu á virðingu fyrir mannréttindum kvenna og barna ásamt afnámi kynþáttamisréttis. Hann minnti á alþjóðaráðstefnurnar sem fyrirhugaðar eru á næsta ári um börn og um afnám kynþáttamisréttis.
Ráðherra tók undir niðurstöður skýrslu aðalframkvæmdastjórans um baráttuna gegn fátækt. Hann taldi að alþjóðavæðing og tækniþekking skapaði möguleika á að útrýma fátækt fyrr en ella.
Ráðherra ítrekaði nauðsyn þess að öll aðildarríkin greiddu framlög sín að fullu, án skilyrða.
Utanríkisráðherra fagnaði því að á undarförnum árum hefði athygli allsherjarþingsins beinst að málefnum hafsins í auknum mæli og áréttaði mikilvægi Hafréttarsáttmálans í þessari umræðu. Hann sagði að liðsmönnum í baráttunni gegn mengun sjávar yxi sífellt ásmegin og vænti frekari aðgerða, sérstaklega gegn mengun frá landstöðvum.
Ræðan fylgir hjálagt á ensku.








Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. september 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta