Hoppa yfir valmynd
22. september 2000 Heilbrigðisráðuneytið

16. - 22. september

Fréttapistill vikunnar
16. - 22. september


Frítekjumörk örorku- og ellilífeyrisþega hækka - dregið úr tengingu tekna og bóta.
Frítekjumark þeirra sem fá ellilífeyri en eiga maka sem ekki er ellilífeyrisþegi hækkar um 11.190 kr. á mánuði með gildistöku reglugerðar sem Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur undirritað. Frítekjumark örorkulífeyrisþega í sömu stöðu hækkar um 16.748 kr. á mánuði. Þetta er í samræmi við yfirlýsingu ráðherra um að draga úr tenginum tekna og bóta, en fyrsta skrefið í þá átt var stigið með breytingu á lögum nr. 149/1998. Ráðherra hefur einnig undirritað reglugerð um hækkun á bensínstyrk til öryrkja sem nemur um 1.300 kr. á mánuði. Í fréttatilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í dag [22. sept.] eru breytingar sem reglugerðirnar hafa í för með sér skýrðar með dæmum.
Sjá fréttatilkynningu >

Tannheilsa.is - Ný heimasíða með fræðslu um tannheilsu og tannvernd.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra opnaði formlega nýja heimsíðu Tannverndarráðs í gær, 21. september. Á síðunni eru upplýsingar og fræðsluefni fyrir fagfólk og almenning. Áhersla er lögð á fræðslu fyrir afmarkaða hópa, s.s. börn, aldraða og sjúka með efni sem sniðið er að þörfum hvers hóps. Stefnt er að því að síðan verði ríkjandi þáttur í fræðslustarfi Tannverndarráðs.
www.tannheilsa.is >

Nefnd til að sporna gegn ofnotkun sýklalyfja og hindra ónæmi baktería fyrir sýklalyfjum.
Að tillögu sóttvarnarráðs hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipað nefnd sem hefur það hlutverk að vakta ónæmi fyrir sýklalyfjum meðal sýkla í mönnum, dýrum og umhverfi. Jafnframt skal nefndin fylgjast með notkun sýklalyfja og vera yfirvöldum og öðrum er málið varðar til ráðgjafar um aðgerðir til að sporna við ofnotkun sýklalyfja og öðru sem að gagni má koma til að hindra myndun ónæmis. Ætlast er til þess að nefndin skili ráðherra skýrslu um störf sín árlega. Formaður nefndarinnar er Karl G. Kristinsson, prófessor, sýklafræðideild Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Útboðslýsing vegna sjúkra- og áætlunarflugs tilbúin.
Gerð útboðslýsingar um rekstur sjúkra- og áætlunarflugs á Íslandi er nú lokið og liggur hún frammi hjá Ríkiskaupum til sölu og sýnis. Unnið hefur verið að gerð hennar frá því fyrr í sumar og er um að ræða samstarfsverkefni á vegum heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, Tryggingastofnunar ríkisins og Flugmálastjórnar, sem Ríkiskaup sá um.
Sjá fréttatilkynningu >

Færeyingar kynna sér skipan heilbrigðismála á Íslandi.
Sjö manna sendinefnd frá færeyska þinginu, lögtingets trivnadarnefnd, heimsótti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið í vikunni til að kynna sér skipan heilbrigðismála á Íslandi. Fjallað var almennt um uppbyggingu íslenska heilbrigðiskerfisins, veitt innsýn í útgjöld til heilbrigðismála og skiptingu þeirra samanborið við nágrannaþjóðirnar og margt fleira. Af viðbrögðum sendinefndarinnar að dæma hafa Færeyingar mikinn áhuga á fyrirkomulagi heilbrigðis- og félagsmála á Íslandi.

Umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra árið 2001.
Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra hefur auglýst eftir umsóknum um framlög úr sjóðnum árið 2001. Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt, eins og fjallað er um í lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999. Frestur til að sækja um framlög úr sjóðnum fyrir árið 2001 rennur út 1. desember. Nánari upplýsingar og eyðublöð vegna umsókna úr sjóðnum eru aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins.
Sjá nánar>

Nýstofnuð nefnd sem fjallar um málefni langveikra barna.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað nefnd fjögurra ráðuneyta til að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna sem samþykkt var í febrúar 2000. Nefndinni er ætlað að samræma aðgerðir sem falla undir fleiri en eitt ráðuneyti og vera tengiliður við hlutaðeigandi aðila. Í nefndinni sitja; Hallgrímur Guðmundsson stjórnsýslufræðingur, tilnefndur af fjármálaráðherra. Stefán Baldursson skrifstofustjóri, tilnefndur af menntamálaráðherra. Þorgerður Benediktsdóttir, tilnefnd af félagsmálaráðherra og Margrét Björnsdóttir deildarstjóri, formaður nefndarinnar, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Undirritun samnings um geðrækt - fræðslu og forvarnir.
Geðrækt er heiti verkefnis sem hleypt hefur verið af stokkunum til að upplýsa almenning um geðheilsu og geðsjúkdóma, veita fræðslu um forvarnir og eyða fordómum. Verkefnið er unnið á vegum Geðhjálpar í samstarfi við Landlæknisembættið og geðsvið Landspítala - háskólasjúkrahúss. Samstarfssamningur um verkefnið var undirritaður nýlega.
Sjá nánar>

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
22. september





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta