Hoppa yfir valmynd
27. september 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 066, 27. september 2000. Ársfundur Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Prag

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 66


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra situr nú ársfund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Prag. Samhliða ársfundinum hefur utanríkisráðherra átt fundi með sendinefndum annarra þátttökulanda og stjórnendum Alþjóðabankans.

Utanríkisráðherra átti fund með Jose Ramos-Horta um þátttöku Íslands í uppbyggingarstarfinu á Austur-Tímor. Fundinn sat einnig Marie Alcatiri sem fer með yfirstjórn efnahagsuppbyggingar í landinu fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna. Í fjárhagsáætlun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) fyrir árið 2001 verður gert ráð fyrir fjárframlagi til að hefja samstarf við Austur-Tímor.

Utanríkisráðherra og Gerald M. Ssendaula fjármálaráðherra Úganda skrifuðu undir samstarfssamning um þróunarsamvinnu landanna. Með þessum samningi bætist nýtt land í hóp samstarfslanda ÞSSÍ. Á næstu mánuðum verða lögð drög að verkefnum á sviði fiskveiða, menntunar og heilsugæslu. Auk þess ræddu ráðherrarnir um möguleika á sviði nýtingar jarðvarma og vatnsorku. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjóri ÞSSÍ muni hefja störf í Kampala, höfuðborg Úganda, síðar á þessu ári.

Þá skrifuðu utanríkisráðherra og Motoo Kusakabe, varaforseti Alþjóðabankans, undir samning um tveggja milljóna Bandaríkjadala framlag Íslands til alþjóðlegs átaks sem miðar að niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims (sjá hjálagt fréttatilkynningu Alþjóðabankans um framlag Íslands). Þegar hefur verið gengið frá lækkun skulda tíu þróunarríkja og búist er við að tíu ríki til viðbótar fái skuldalækkun fyrir lok þessa árs.

Utanríkisráðherra fundaði einnig með Ian Johnson, varaforseta Alþjóðabankans sem fer með verkefni á sviði fiskveiða. Íslendingar hafa tekið þátt í samstarfsverkefni Alþjóðabankans, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sþ. (FAO) og nokkurra fleiri ríkja um ábyrga fiskveiðistjórn þróunarlanda.

Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja áttu fund með James D. Wolfensohn, forseta Alþjóðabankans, þar sem ræddar voru lánveitingar bankans til Eystrasaltsríkjanna, og framtíðarhorfur og áherslur í verkefnavali bankans.







Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 27. september 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta