Skipun nefndar um afþreyingarfyrirtæki í ferðaþjónustu
Samgönguráðherra skipaði í gær, þriðjudag, nefnd sem ætlað er það hlutverk
að kanna hvort ástæða er til, og ef svo er, að gera tillögur að reglum um
rekstrarleyfi til handa fyrirtækjum sem bjóða upp á hvers konar afþreyingu
í ferðaþjónustu en falla ekki undir skilgreiningu laga um
ferðaskipuleggjendur eða ferðaskrifstofur. Hér er einkum átt við starfsemi
eins og hestaleigur, vélsleðaferðir, bátsferðir o.fl. Einnig skal nefndin
gera tillögur að reglum er varða öryggi afþreyingarfyrirtækja almennt.
Í upphafi skal nefndin semja verk- og kostnaðaráætlun fyrir það verkefni
sem framundan er og kynna þá áætlun fyrir ráðherra. Reiknað er með að
nefndin skili tillögum til samgönguráðherra eigi síðar en í mars 2001.
Formaður nefndarinnar er Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands,
en með honum í nefndinni eru Arngrímur Hermannsson, framkvæmdastjóri,
Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri, og Helga Haraldsdóttir, deildarstjóri.