Umhverfisverðlaun 2000
Samönguráðherra veitti umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs fyrir skömmu og fylgir ávarp sem hann flutti við það tækifæri hér á eftir.
Það er öllum ljóst að helsta aðdráttarafl landsins er fjölbreytt og stórbrotin náttúra þess. Það er því mikilvægt að gestir okkar finni að við umgöngumst náttúruna af þeirri virðingu sem henni ber. Það þýðir ekki að þarfir mannsins séu settar til hliðar heldur er fyrst og fremst um breyttan hugsunarhátt að ræða sem mun tryggja lífsgæði okkar jafnframt því að vernda náttúruna.
Tilgangur Umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs er að vekja athygli á því sem vel er gert og að hvetja ferðaþjónustuaðila til ábyrgðar á eigin athöfnum auk þess að vekja gestina til vitundar um gildi eigin athafna.
Í ár bárust 11 tilnefningar frá ferðamálafulltrúum og er þeim þökkuð sú vinna og alúð sem þeir lögðu í að finna verðuga fulltrúa á sínu svæði. Það er augljóst að sífellt fleiri fyrirtæki, staðir og stofnanir huga að náttúrunni og umhverfinu öllu í sinni starfsemi og uppbyggingu. Valið var því ekki auðvelt en Ferðamálaráð hefur þó komist að niðurstöðu.
Gistiheimilið Brekkubær hefur verið starfrækt á Hellnum á Snæfellsnesi frá árinu 1997. Reksturinn hefur verið í höndum ýmissa aðila innan Snæfellsás-samfélagsins en í á þessu ári var stofnað hlutafélag um reksturinn. Aðaleigendur þess eru Guðríður Hannesdóttir og Guðrún G. Bergmann.
Það er ljóst að á Hellnum verið unnið brautryðjendastarf á sviði umhverfisvænnar ferðaþjónustu. Þau eru ekki mörg ferðaþjónustufyrirtækin sem hafa markvisst verið byggð upp í anda umhverfisvænnar ferðaþjónustu og má fullyrða að umhverfisstefna gistiheimilisins tekur á flestum ef ekki öllum umhverfisþáttum er lúta að rekstri slíkra fyrirtækja.
Það er því ánægjulegt að geta verðlaunað þetta brautryðjendastarf og þannig stuðlað að því að aðrir tileinki sér enn frekar virðingu og umhyggju fyrir umhverfinu í starfsemi sinni.
Ég vil biðja þær Guðríði Hannesdóttur og Guðrúnu G. Bergmann að koma hér upp og veita verðlaununum viðtöku.
Verðlaunin eru höggmyndin HARPA eftir Hallstein Sigurðsson.