Fréttapistill vikunnar
7. - 13. október
Ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, varpaði fram þeirri hugmynd á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins í dag hvort ekki væri tímabært að fram færu nú umræður um heilbrigðismál á nýrri öld með aðild samtaka vinnuveitenda og launafólks. Ráðherra sagðist á fundinum vera þeirrar skoðunar, að nú væri tímabært að ná sátt um heilbrigðis-og tryggingakerfið með svipuðum hætti og gert var þegar lögð voru drög að lífeyristryggingakerfinu fyrir 30 árum. Ráðherra ræddi um forvarnir og sagðist íhuga að sameina allar forvarnir undir einn hatt, en sagði svo: " Heilbrigðisþjónusta framtíðarinnar mun í vaxandi mæli snúast um, að koma í veg fyrir að einstaklingarnir veikist og reyna tryggja að þeir séu heilsuhraustir langt fram á efri ár. Það er hagur einstaklinganna, það er hagur atvinnufyrirtækjanna og hagur alls samfélagsins. Fyrir svo sem eins og þremur áratugum komust atvinnurekendur og vekalýðshreyfing að gagnmerku samkomulagi í lífeyristryggingamálum, en til þess má rekja uppbyggingu lífeyrissjóðanna, sem verður mikilvægari eftir því sem árin líða og mun að öllum líkindum verða til þess, að íslenska velferðarkerfið stendur, þegar önnur sligast. Ég held að einmitt nú sé bæði tímabært og afar mikilvægt að faghópar, samtök atvinnurekenda og hin almenna verkalýðshreyfing reyni í samráði við heilbrigðisyfirvöld, að ná sátt um þróun heilbrigðisþjónustunnar til langrar framtíðar, líkt og gert var á tryggingasviðinu fyrir þremur áratugum. Og ég er reiðubúin að leggja mitt af mörkum til að kanna, hvort áhugi er á slíku samstarfi. Góð heilbrigðisþjónusta er kjaramál og svo snar þáttur í samfélagsþróuninni og samkeppnishæfni í alþjóðlegum umhverfi, að um hana þarf að ríkja sátt. Til þess að svo megi verða áfram þurfum við að hlusta á öll sjónarmið."
Ræða ráðherra í heild >
Lyfjaliður vísitölu neysluverð lækkar
Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hefur lyfjaliður vísitölu neysluverðs farið lækkandi á þessu ári, en þessi þróun stangast á við fullyrðingar um "stórkostlega hækkun lyfjaverðs til sjúklinga" sem haldið var á lofti eftir að gerðar voru breytingar á greiðsluhluta þeirra sem nota lyf um áramótin og svo aftur í júní í sumar. Samkvæmt október mælingu Hagstofunnar hefur lyfjaliður vísitölu neysluverðs breyst lítið síðustu 20 mánuðina andstætt því sem hefði mátt ætla af umræðum á opinberum vettvangi. Lyfjaliðurinn í neysluverði var 85,2 í janúar á þessu ári, en var 82,4 nú í október og mældist nánast sá sami í ársbyrjun 1999.
Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra til Sidney
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, heldur til Ástralíu í næstu viku. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra mun þar verða viðstaddur olympíuleika fatlaðra í nokkra daga, en leikarnir hefjast í vikunni.
Góð reynsla af reynslusveitarfélögum
Föstudaginn 6. október kynntu Félagsmálaráðuneytið og PricewaterhouseCoopers (Hagvangur) fulltrúum ráðuneyta og sveitarfélaga skýrslu um mat á framkvæmd reynslusveitarfélagaverkefna á tímabilinu 1996 - 1999. Þar kom fram að víðast hefur tekist að ná markmiðum laga um reynslusveitarfélög nr. 82/1994, en þau fólu m.a. í sér að auka sjálfstjórn sveitarfélaga, aðlaga stjórnsýslu að staðbundnum aðstæðum, bæta þjónustu við íbúa og nýta betur fjármagn. Á sviði heilbrigðismála hafa Akureyrarbær og Hornafjörður tekið að sér verkefni á sviði heilsugæslu og öldrunarmála. Í skýrslunni kemur fram að tekist hefur að draga úr stofnanadvöl aldraðra og efla og samhæfa þjónustu utan stofnana. Sömuleiðis kom fram að yfir 80% íbúa á báðum þessu stöðum eru ánægðir með þær breytingar sem orðið hafa á skipulagi og framkvæmd öldrunarþjónustu á umræddu tímabili. Tilraunirnar á Akureyri og Hornafirði standa til loka ársins 2001 og verður þá tekin ákvörðun um hvort heilsugæsla og öldrunarmál verða áfram á hendi sveitarfélaganna.
Ný stjórn Heyrnar og talmeinastöðvarinnar
14. júlí 1999 óskaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti eftir tilnefningum í stjórn Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands á grundvelli laga nr. 35/1980 um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Tilnefningar hafa nú borist frá öllum aðilum nema Félagi háls-, nef- og eyrnalækna, sem ákvað að tilnefna ekki fulltrúa í stjórnina á meðan unnið er að endurskoðun á starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Stjórnin er þannig skipuð: Jóhannes Pálmason, formaður, skipaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra án tilnefningar, Valgerður Stefánsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðuneyti, Jóhannes Ágústsson, tilnefndur af Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra, Málfríður D. Gunnarsdóttir, tilnefnd af félaginu Heyrnarhjálp, Elmar Þórðarson og Þóra Másdóttir til vara, tilnefnd af Félagi talkennara og talmeinafræðinga Berglind Stefánsdóttir, tilnefnd af Vesturhlíðarskóla.
Vátryggingar hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum á nýju ári
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, undirritaði í dag reglugerð sem skyldar alla sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn til að hafa í gildi vátryggingu vegna hugsanlegra tjóna, sem eru bótaskyld samkvæmt lögunum um sjúklingatryggingar. Með reglugerðinni er það tryggt að sjúklingar sem leita til sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna eftir 1. janúar 2001 eru tryggðir fyrir tjóni sem þeir kynnu að verða fyrir. Þeir heilbrigðisstarfsmenn sem reglugerðin tekur til þurfa að staðfesta tryggingar sínar við heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið eigi síðar en 31. desember næst komandi.