Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins í Barrow í Alaska
Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, sat ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Barrow, Alaska, 12.-13. október.
Norðurskautsráðið sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands var stofnað 1996. Starf Norðurskautsráðsins beinist einkum að umhverfismálum og sjálfbærri þróun á Norðurslóðum.
Verndun hafsins gegn mengun er mikilvægur þáttur í starfi ráðsins og vék ráðherra að því í ræðu sinni. Beindi hún athyglinni m.a. að hættunni sem stafar af mengun vegna þrávirkra lífrænna efna. Lagði hún mikla áherslu á mikilvægi þess að ljúka alþjóðlegum samningi um þrávirk lífræn efni. Einnig benti hún á hættu á geislamengun vegna hugsanlegra óhappa og nauðsyn þess að bregðast við slíku í tíma.
Á fundinum var tekin ákvörðun um verkefni fastra vinnuhópa ráðsins næstu tvö árin. Auk þess var samþykkt vísindaleg áætlun um mat á loftslagsbreytingum á Norðurheimskautssvæðinu og áhrifum þeirra á umhverfi og heilsufar með sérstakri áherslu á efnahagslega og félagslega þætti. Í umræðum um áætlunina vitnaði ráðherra m.a. til nýrrar skýrslu umhverfisráðuneytisins um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Í máli sínu lagði hún áherslu á mikilvægi þess að hafa traustan vísindalegan grunn að byggja á til að ná pólitískri samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir til að sporna við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á afkomu og líf fólks á Norðurslóðum.
Einnig ræddi umhverfisráðherra um framtíð samstarfsins innan Norðurskautsráðsins. Hún lagði áherslu á að starfsemi ráðsins á sviði sjálfbærrar þróunar taki mið af grundvallar atriðum umhverfisverndar. Jafnframt lagði hún til að Norðurskautsráðið taki upp samstarf við aðra aðila og stofnanir sem starfa að hliðstæðum málaflokkum eins og t.d. Barentsráðið, Eystrasaltsráðið og Norrænu ráðherranefndina. Ráðherra benti einnig á mikilvægi þess að auka samvinnu við Evrópusambandið, einkum áætlun þess um hina norðlægu vídd, þar sem hún spannar yfir málefni Norðurskautsins. Að lokum lagði ráðherra áherslu á að skipulag á starfsemi ráðsins verði endurskoðað til að mæta betur nýjum aðstæðum.
Fréttatilkynning nr. 19/2000
Umhverfisráðuneytið