Hoppa yfir valmynd
19. október 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afkoma ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins 2000. Greinargerð 19. október 2000

Nú liggja fyrir tölur um afkomu ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins 2000. Þær eru á greiðslugrunni og því ekki sambærilegar við fjárlög ársins, en þau eru sett fram á rekstrargrunni. Engu að síður gefa þessar tölur góða vísbendingu um þróun ríkisfjármála það sem af er árinu í samanburði við hliðstætt tímabil á síðustu tveimur árum.

Heildaryfirlit
Á fyrstu níu mánuðum ársins voru innheimtar tekjur ríkissjóðs 4,9 milljörðum króna umfram greidd gjöld, samanborið við 8,1 milljarðs króna afgang á sama tíma í fyrra og 2,3 milljarða halla árið 1998. Þetta er um 6 milljörðum króna hagstæðari niðurstaða en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Skýringin á því að rekstrarafgangur er minni á þessu ári en í fyrra er að vaxtagreiðslur ríkisins hækka um tæplega 5 milljarða króna milli ára, fyrst og fremst vegna sérstakrar forinnlausnar spariskírteina á þessu ári. Að vaxtagjöldum frátöldum hefði afgangurinn orðið nær 2 milljörðum króna hagstæðari nú en í fyrra. Hreinn lánsfjárjöfnuður var jákvæður um 1,6 milljarða króna, en á sama tíma í fyrra var lánsfjárjöfnuðurinn hagstæður um 7 milljarða króna og árið 1998 um S milljarð. Þessi stærð gefur til kynna hvaða fjármagn ríkissjóður hefur til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir. Á fyrstu átta mánuðum ársins námu afborganir eldri lána 28,8 milljörðum króna en nýjar lántökur 21 milljarði. Greiðsluafkoma ríkissjóðs var því neikvæð um tæpa 6 milljarða króna sem mætt var með lækkun á innistæðu ríkissjóðs hjá Seðlabanka.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-september
(Í milljónum króna)



Við samanburð á mánaðarlegum afkomutölum ríkissjóðs er rétt að hafa í huga að tekjur ríkissjóðs sveiflast mjög mikið milli mánaða, eða sem nemur að jafnaði um 5 milljörðum króna. Þessi þróun, sem einnig kemur fram í afkomutölunum, endurspeglar fyrst og fremst skil á virðisaukaskatti sem fara fram annan hvern mánuð.

Tekjur
Heildartekjur ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins námu 148,4 milljörðum króna, samanborið við 135,1 milljarða á sama tíma í fyrra og 115,8 milljarða árið 1998. Hækkunin frá fyrra ári nemur 9,8%, samanborið við 16,7% árið áður. Breyting skatttekna milli ára er svipuð, en þær hækka um 10,4% fyrstu níu mánuði þessa árs, samanborið við 17,3% hækkun í fyrra. Þessi þróun sýnir enn og aftur að verulega hefur dregið úr almennum tekju- og veltubreytingum í þjóðarbúskapnum á þessu ári og er um leið ákveðin vísbending um að þenslan í efnahagslífinu sé í rénun.

Tekjur ríkissjóðs janúar-september
(Í milljónum króna)



Þótt hækkun skatttekna sé almennt minni á þessu ári en í fyrra eru breytingar á einstökum liðum mismunandi. Þannig hækka tekjuskattar meira en veltuskattar, eða um nær 18%, samanborið við tæplega 7% hækkun almennra veltuskatta. Í þessum tölum gætir mjög áhrifa mikillar tekjuaukningar vegna fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts lögaðila. Tekjuskattur einstaklinga hækkar hins vegar minna.

Hækkun veltuskatta svarar til um 2% aukningar að raungildi það sem af er þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta eru mikil umskipti frá þróuninni á sama tíma fyrir ári, þegar raunaukning veltuskatta var 14-15%. Sérstaka athygli vekur þróun tekna af virðisaukaskatti sem hafa hækkað um tæplega 10% það sem af er þessu ári, eða helmingi minna en á sama tíma í fyrra. Þessi umskipti sýna glöggt hve mikið hefur dregið úr innlendri eftirspurn að undanförnu.

Athyglisvert er að sjá hvernig einstakir veltuskattar hafa breyst milli ára. Þannig jukust vörugjaldstekjur af ökutækjum um meira en 30% í fyrra en lækka á fyrstu níu mánuðum þessa árs um 11%. Þetta endurspeglar fyrst og fremst minni bílainnflutning á þessu ári, en einnig kann að gæta áhrifa frá lækkun vörugjalds síðastliðið vor.

Vörugjaldstekjur af bensíni hækka um 6% í ár, eða svipað og í fyrra þrátt fyrir að olíuverð á heimsmarkaði hafi á sama tíma hækkað um nálægt 80%. Skýringin á þessu er hins vegar sú að skattlagning á bensíni hér á landi endurspeglar ekki lengur sveiflur í bensínverði á heimsmarkaði. Þannig var álagningu almenns vörugjalds á bensín breytt í októberlok í fyrra til lækkunar, úr hlutfallslegu gjaldi af innflutningsverði í fast krónugjald á hvern lítra, í því skyni að draga úr áhrifum hækkandi heimsmarkaðsverðs á bensíni á söluverð hér heima. Áhrif breyttrar álagningar bensíngjalds koma glöggt fram í því að bensínverð hér innanlands væri nú um tólf krónum hærra á lítra ef eldri tilhögun væri enn í gildi.

Þungaskattur hækkar svipað og á sama tíma í fyrra, eða um 16-17%. Tekjur af þungaskatti eru nokkru meiri í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það stafar alfarið af meiri fjölgun dísilbifreiða og auknum akstri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga þessa árs, auk þess sem innheimta þungaskatts hefur batnað. Þær breytingar sem gerðar voru fyrr á þessu ári á gjaldflokkum þungaskatts hafa hins vegar engin áhrif haft enda eru þær aðeins nýlega komnar til framkvæmda og lítið farnar að skila sér inn í innheimtutölur. Auk þess áttu þær ekki að hafa áhrif á heildarinnheimtu þungaskatts.

Aðrar tekjur, svo sem arðgreiðslur, vaxtatekjur og hagnaður af sölu eigna, hafa hækkað um rúmlega 3%, samanborið við 10S% hækkun á síðasta ári.

Gjöld
Heildarútgjöld ríkissjóðs námu um 143S milljarði króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hækka um 16S milljarð, eða 13%, frá sama tíma í fyrra. Hátt í þriðjung þessarar hækkunar, eða 4,9 milljarða, má rekja til aukinna vaxtagreiðslna, fyrst og fremst vegna sérstakrar forinnlausnar spariskírteina á þessu ári. Útgjaldahækkunin, án vaxta, nemur um 10% milli ára, sem er svipað og áætluð hækkun þjóðarútgjalda.

Útgjöld til almennra mála, en þar falla undir æðsta stjórn ríkisins, dómgæsla, löggæsla o.fl., hækka um 15% milli ára. Þar vega greiðslur til æðstu stjórnar ríkisins þyngst, einkum vegna sérstakra tímabundinna verkefna forsætisráðuneytis. Þá hækka greiðslur til löggæslu, sýslumanna o.fl. um 10%. Greiðslur til utanríkisþjónustunnar standa nánast í stað milli ára þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað, þar sem á móti vegur lækkun stofnkostnaðar.

Nálægt tveir þriðju af útgjöldum ríkisins það sem af er árinu, eða 88 milljarðar króna, hafa runnið til ýmissa félagsmála, svo sem mennta-, menningar-, heilbrigðis- og tryggingamála. Útgjöld til þessa málaflokks hækka í heild um 8,7% milli ára, en frávik einstakra viðfangsefna eru veruleg. Þannig hækka greiðslur til sjúkrahúsa og öldrunarþjónustu um tæp 13% á meðan ýmsar tilfærslur, s.s. almannatrygginga, hækka aðeins um tæp 6%. Bótafjárhæðir hækka í samræmi við launaþróun, en á móti vega áhrif tekjutengingar bóta og minna atvinnuleysi. Atvinnuleysi er um 1S% það sem af er árinu á móti rúmum 2% á sama tíma í fyrra.

Gjöld ríkissjóðs janúar-september
(Í milljónum króna)

 

Útgjöld til atvinnumála hækka um 6% og skýrist af framlögum til vegamála sem hækka um 7,9%. Aftur á móti eru greiðslur til landbúnaðarmála nær óbreyttar milli ára. Veigamestu útgjaldaliðirnir fylgja forsendum sem fram koma í vegaáætlun og búvörusamningi.

Vaxtagreiðslur hækka sem fyrr segir um 4,9 milljarða króna milli ára og verulega umfram forsendur fjárlaga sem skýrist að mestu af forinnlausn spariskírteina á þessu ári. Innlausnin kemur fram sem hækkun á greiðslugrunni, en fyrirframgreiðsla vaxta með þessum hætti skilar sér í minni vaxtagreiðslum síðar.

Önnur útgjöld hækka um 1,6 milljarða króna, sem skýrist að mestu af breyttri bókhaldsmeðferð vegna uppbóta á lífeyri sem greiddar eru til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Lánahreyfingar
Lánveitingar ríkissjóðs, nettó, taka til greiðslna vegna veittra lána, sölu hlutabréfa og hreyfinga á viðskiptareikningum. Innheimtar afborganir umfram ný veitt lán námu 1 milljarði króna í samanburði við 2,5 milljarða á sama tíma í fyrra. Verulega hefur dregið úr lánveitingum ríkissjóðs á undanförnum árum. Greiðslur af almennum viðskiptareikningum námu 5,1 milljarði og greiðslur til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs nema alls 4,5 milljörðum króna. Á móti þessu vegur að innborganir í upphafi þessa árs vegna sölu viðskiptabanka á síðasta ári námu um 5S milljarði króna.

Afborganir lána ríkissjóðs námu 28,8 milljörðum króna, eða 10 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Þar ber hæst forinnlausn spariskírteina, sem nam 9 milljörðum króna, en það er um tvöfalt meira en í fyrra. Var uppkaupum beint að fjórum flokkum spariskírteina sem eru ekki nægilega seljanlegir á eftirmarkaði. Afborganir erlendra lána námu 13,5 milljörðum króna og er það tæplega 4 milljörðum meira en í fyrra.

Lántökur ríkisins námu um 21,5 milljarði króna, og skiptast þannig að erlendar lántökur nema 18,5 milljörðum og innlendar 3 milljörðum króna. Er það rúmlega 13 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Í febrúar sl. gaf ríkissjóður út skuldabréf til sjö ára að fjárhæð 200 milljónir evra og nam andvirði þeirra 14S milljarði króna sem var notað til endurgreiðslu erlendra lána. Þá nema erlendar skammtímalántökur 4 milljörðum sem notað er til að mæta tímabundinni fjárþörf innan ársins. Sala ríkisvíxla innanlands var rúmlega 1 milljarði lægri en innlausn, samanborið við 4 milljarða króna lækkun á sama tíma í fyrra. Þá nemur sala spariskírteina og ríkisbréfa í ár 4 milljörðum króna samanborið við 2,9 milljarða í fyrra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta