Hoppa yfir valmynd
20. október 2000 Heilbrigðisráðuneytið

14. - 20. október


Fréttapistill vikunnar
14. - 20. október


Nærri 1,5 milljarða aukafjárveiting til sjúkratrygginga
Farið er fram á 1.457 milljóna króna aukaframlag til sjúkratrygginga í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi s.l. miðvikudag. Gert er ráð fyrir 660 milljóna króna aukafjárveitinga vegna aukins lyfjakostnaðar. Farið er fram á 410 milljónir króna vegna aukins lækniskostnaðar, einkum sérfræðilækniskostnaðar og 125 milljóna króna framlag til að mæta kostnaði vegna brýnnar meðferðar sjúklinga erlendis á þessu ári. Kostnaður vegna hjálpartækja hefur aukist m.a. vegna aukinnar notkunar og dýrari búnaðar og er vegna þess farið fram á 97,3 milljóna króna aukafjárveitingu. Í frumvarpi til fjáraukalaga er jafnframt farið fram á tæplega 40 milljóna króna framlag til Landspítala - háskólasjúkrahúss til að mæta viðbótarkostnaði við óvenjutíð og alvarleg slys sem urðu fyrstu átta mánuði þessa árs.

Laus staða framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Akranesi
Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunarinnar Akranesi hefur óskað eftir því að láta af störfum og er staðan nú auglýst laus til umsóknar. Framkvæmdastjóri verður skipaður af heilbrigðisráðherra til fimm ára. Óskað er eftir að framkvæmdastjóri hefji störf sem fyrst. Umsækjendur skulu hafa háskólamenntun eða sambærilega menntun ásamt reynslu í rekstri og stjórnun. Launakjör eru samkvæmt ákvörðun kjaranefndar. Nánari upplýsingar um starfið veita Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri (s. 560-9700) og Guðni Tryggvason, formaður stjórnar Heilbrigðisstofnunarinnar Akranesi (s. 431-3333). Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Laugavegi 116, 150 Reykjavík fyrir mánudaginn15. nóvember n.k. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun hefur verið tekin.

Samið um aðgang Íslendinga að fjölda gagnasafna á Netinu, m.a. um heilbrigðismál
Verkefnisstjórn um aðgengi að gagnasöfnum hefur gengið frá samningi um landsaðgang að ProQuest 5000 gagnasafninu. Þar er aðgangur að 19 gagnasöfnum, tilvísanir í um 7.300 tímarit með útdrætti úr þeim flestum og aðgangur að öllum texta og myndum um 3.500 tímarita. Aðgengi að gagnasöfnum verður ekki takmarkað við starfsmenn tiltekinna stofnana, heldur munu starfsmenn fyrirtækja og fólk í heimahúsum geta tengst þessum gagnasöfnum ef internetveitan sem þeir eru tengdir uppfyllir öryggisreglur. Fyrir starfsfólk í heilbrigðiskerfinu má sérstaklega benda á eftirtalin gagnasöfn:
ProQuest Medical Library.
Efnissvið: læknisfræði, hjúkrun, lyfjafræði. Þar er aðgengi að 230 tímaritum með allan texta og myndir. Greinar frá árinu 1997. Var valinn besti gagnagrunnurinn á árinu í Information Today.
ProQuest Health.
Efnissvið: læknisfræði, hjúkrun, tannlækningar, stjórnun sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Þessi gagnagrunnur hentar einnig vel almenningi. Þar er aðgengi að 170 tímaritum með öllum texta þeirra og myndum.
Pharmaceutical News Index.
Efnissvið: lyfjafræði og líftækni sem nýtist jafnt fræðimönnum og atvinnulífinu. Þar er aðgengi að 17 tímaritum en ekki allur textinn. Upplýsingar allt frá árinu 1974.
Nánar á vef menntamálaráðuneytisins >

Fjárfestu í beinunum! - Alþjóðlegi beinverndardagurinn 20. október
Alþjóðlegi beinverndardagurinn er í dag, 20 október. Í tilefni dagsins hafa skólar um allt land efnt til sérstaks beinverndarátaks. Yfirskrift dagsins er fjárfestu í þínum beinum. Rannsóknir hafa sýnt að mataræði barna versnar þegar þau komast á unglingsár. Því ákvað félagið Beinvernd að höðfa að þessu sinni sérstaklega til ungs fólks og vekja athygli þess á því hve gott mataræði og hreyfing er mikilvæg fjárfesting sem skilar sterkari beinum. Íþróttakennarar í 150 grunnskólum um allt land fengu sendan bæklinginn Hollusta styrkir bein, ásamt fleira fræðsluefni ætluðu til dreifingar í 8. bekk. Félagið Beinvernd hefur nú opnað heimasíðu með fræðslu og gagnlegum upplýsingum um beinþynningu. Þar getur fólk einnig tekið einfalt áhættupróf sem veitir vísbendingar um hvort það sé í hættu á að fá beinþynningu.
Ný heimasíða Beinverndar >

Sala á tóbaki minnkar.
Fyrstu níu mánuði þessa árs var selt 2,5% minna af tóbaki en á sama tímabili í fyrra, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Reyktóbakssala minnkaði um 12%, vindlasala um 3% og sígarettusala um 2%. Aftur á móti jókst sala á nef- og munntóbaki um 2%. Margar kannanir hafa leitt í ljós að um 70% útsölustaða tóbaks brjóta lögboðið bann við tóbakssölu til unglinga yngri en átján ára. Reykjavíkurborg, Tóbaksvarnarnefnd og Verslunarmannafélag Reykjavíkur standa í vetur fyrir viðamiklu átaki til að stöðva ólöglega sölu tóbaks til barna og unglinga í Reykjavík. Stefnt er að víðtæku samstarfi við útsölustaðina sjálfa, stórauknu aðhaldi og eftirliti með þessum þætti í starfsemi þeirra.
Nánar á heimasíðu Tóbaksverndarnefndar >

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
20. október, 2000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta