Íslenskur mengunarvarnarbúnaður fyrir díselvélar
Í dag var Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, viðstödd afhendingu íslensks mengunarvarnarbúnaðar fyrir díselvélar um borð í Sturlaugi Böðvarssyni. Búnaður þessi er svokallaður brennsluhvati, en það er tæki sem komið er fyrir í eldsneytisrás vélar og hefur áhrif á brennslu eldsneytisins, þannig að nýting eldsneytisins batnar án þess að vélarorka minnki.
Brennsluhvatinn, -COMTEC gerir það að verkum að minna eldsneyti þarf til að fá sama afl frá vél. Losun á CO2 minnkar í réttu hlutfalli við eldsneytissparnaðinn. Á Íslandi má rekja 26% af heildarlosun allra gróðurhúsalofttegunda til fiskveiða. Til samanburðar eru 26% frá samgöngum og 32% frá iðnaði. Frá viðmiðunarári Kyoto-bókunarinnar árið 1990, hefur losun frá fiskveiðum aukist úr 655 þús. tonn í 781 þús. tonn.
Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda búnaðarins hefur opinber stofnun í Kaliforníu á sviði loftmengunareftirlits, hefur CARB (California Air Resources Board) ákveðið að taka til skráningar þennan íslenska búnað sem mengunarvarnarbúnað fyrir dísilvélar.
Þá mun nýleg prófun þegar búnaðinum var komið fyrir í 11.000 hestafla (bhp) kanadísku flutningaskipi, M.V. FERBEC, gefið góða raun. Við prófun sem staðið hefur yfir frá því í júlí kemur í ljós að eldsneytissparnaður er að jafnaði 3,3 %.
Hér á landi hafa ýmsir aðilar komið sér upp búnaði þessum að undanförnu. Auk nokkurra fiskiskipa hefur Atlantsskip komið sér upp brennsluhvatanum, auk þess sem allar fiskimjölsverksmiðjur SR-mjöls hafa notast við búnaðinn í nokkur ár. Mæling á brennsluhvatanum sem gerð var fyrir nokkru af Fiskifélaginu, LÍÚ og Vélskólans bendir til þess að árlegur olíusparnaður hjá meðalstórum togara geti numið 800-1.000 þús.kr.
Umhverfisráðuneytið fagnar því ef íslenskt hugvit verður til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Við útgerð fiskiskipa er afar brýnt að reynt sé að draga úr eldsneytisnotkun með öllum tiltækum ráðum. Uppsetning brennsluhvatans í st. Sturlaugi Böðvarssyni sýnir jákvæðan vilja útgerðar skipsins til þess að leggja sitt af mörkum til þessa nauðsynlega markmiðs. Ráðuneytið hvetur alla útgerðir fiskiskipa til að huga að öllum möguleikum til að draga úr brennslu eldsneytis og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Fréttatilkynning nr. 21/2000
Umhverfisráðuneytið