Samgöngu- og þjónustumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll
Samgönguráðherra hefur skipað nefnd til að undirbúa byggingu samgöngu- og þjónustumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að hún skuli leggja fram tillögur um hvaða möguleikar eru á samstarfi ríkis og einkaaðila við byggingu samgöngu- og þjónustumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll.
Ráðherra leggur áherslu á að nefndin skuli fara rækilega yfir hugsanlega notkun samgöngu- og þjónustumiðstöðvarinnar. Í því sambandi hefur ráðherra ekki hvað síst í huga að kannaðir verði möguleikar þess að í fyrirhugaðri miðstöð verði skapaðar aðstæður fyrir afgreiðslu langferðabíla jafnframt þjónustu við flugið.
Í flugmálaáætlun 2000-2003 er gert ráð fyrir 5.0 m.kr. árið 2000 og 10.0 m.kr. árið 2001 til undirbúnings þessa verkefnis.
Umfang starfs nefndarinnar er að öðru leyti óákveðið og fer alfarið eftir ákvörðunum sem teknar verða síðar í framhaldi af frumathugunum hennar. Því er á þessari stundu óljóst hvort nefndin muni starfa áfram á framkvæmdatímanum.
Leifur Magnússon, framkvæmdastjóri í Reykjavík, var skipaður formaður nefndarinnar, en með honum í nefndinni eru Páll Ólafsson verkfræðingur, Reykjavík, Áslaug Alfreðsdóttir hótelstjóri, Ísafirði, Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi, Reykjavík
Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi, Reykjavík, Kristján Jónsson framkvæmdastjóri, Reykjavík, og Guðmundur Ólason, stjórnsýslufræðingur, Reykjavík.
Starfsmaður nefndarinnar verður Ólafur Hilmar Sverrisson, verkefnisstjóri hjá Flugmálastjórn. Í upphafi skal nefndin semja verk- og kostnaðarætlun fyrir það verkefni sem framundan er og kynna þá áætlun fyrir ráðherra. Við það skal miðað að verkinu verði hraðað svo sem kostur er. Tengiliður nefndarinnar í samgönguráðuneytinu er Jakob Falur Garðarsson.
******************
Ýtarefni: Með skipunarbréfi til nefndarmanna var einnig sent eftirfarandi minnisblað:
Efni: Samgöngu- og þjónustumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli
Samgönguráðuneytið hefur að undanförnu fjallað sérstaklega um málefni Reykjavíkurflugvallar í tengslum við þær framkvæmdir sem þar standa nú yfir. Meðal annars var á síðasta ári starfræktur óformlegur samráðshópur sem í áttu sæti fulltrúar samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis, flugmálastjóri, forstöðumaður Borgarskipulags og aðstoðarborgarverkfræðingur. Markmið með starfi hópsins var m.a. að undirbúa og skoða möguleika á byggingu nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll, sem staðsett yrði í nágrenni við flugskýli Landhelgisgæzlunnar, líkt og ráð er fyrir gert í deiliskipulagi vallarins og í samræmi við áform í flugmálaáætlun .
Niðurstaða vinnuhópsins var að ný flugstöð er forsenda allrar frekari notkunar á flugvallarsvæðinu. Í dag eru starfræktar 3-4 flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli og bjóða flestar, ef ekki allar, upp á óviðunandi aðstöðu bæði fyrir fyrirtæki og farþega. Undir þetta sjónarmið tók ráðuneytið og lagði málið fyrir ríkisstjórn. Þar var samþykkt að hefja undirbúning byggingar samgöngu- og þjónustumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll og að kanna möguleika þess að fjármagna bygginguna með einkaframkvæmd, í stað hefbundinnar fjármögnunar fjárlaga. Er þá átt við að sjálft flugstöðvarhúsið yrði fjölnotahús sem gæti hýst ýmsa tengda starfsemi aðra en eingöngu afgreiðslu fyrir flugfarþega og farangur þeirra. Hinn eiginlegi flugstöðvarhluti yrði því einungis einn af mörgum rekstrarþáttum í starfsemi hússins. Húsið yrði því mjög sveigjanlegt að allri gerð. Þetta er í samræmi við þróun víða erlendis og má þar t.d. nefna flugstöðina í Iverness á Skotlandi. Líklegt er talið að fjárfestar sæu þarna álitlegan fjárfestingarkost og kostnaður ríkisins og farþega gæti orðið minni þar sem fleiri aðilar tækju þátt í rekstri hússins.
Í framahldi af framangreindu þarf að kanna hvort mögulegt sé að leita samstarfsaðila með útboði þar sem áhersla yrði lögð á frumkvæði fjárfesta m.a. hvað varðaði aðra starfsemi hússins. Einnig þarf að kanna hvernig best verði að öðru leyti staðið að byggingu samgöngu- og þjónustumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Það þarf að fara yfir þá kosti sem líklegir eru og koma fram með þann kost sem vænlegastur er talinn.
Hægt er að velja um margar leiðir fyrir þátttöku einkaaðila í rekstri. Sú leið sem gengur styst er að fela einkaaðila að reka mannvirkið að hluta eða öllu leyti í umboði eigenda. Nokkur dæmi eru um að tilraunir hafi verið gerðar hérlendis í þessa veru. Önnur útfærsla nokkuð hliðstæð þessu eru svokölluð útboð á skyldu til opinberrar þjónustu (Public Service Obligation). Sú lausn er þó aðallega hugsuð til þess að nota markaðinn í þeim tilvikum þegar tiltekin grunnþjónusta sem samfélagið vill að sé veitt ber sig ekki. Dæmi um þetta er útboð á áætlunarflugi til smærri staða hér á landi. Algengt að kalla einkaaðila til samstarfs með svokölluðum BOT-samningi (Build Operate Transfer). Þá er gerður samningur við einkaaðila, t.d. um byggingu mannvirkisins, rekstur hennar í tiltekinn tíma (oftast 20-25 ár) og um afhendingu að þeim tíma liðnum. Innlent dæmi sem nálgast þetta er höfnin í Straumsvík, sem var byggð af ÍSAL gegn afnotum af henni í 25 ár. Hvalfjarðargöng eru hér einnig svipað dæmi. Aðrar leiðir til að stofna til þátttöku einkaaðila eru: leigusamningar á aðstöðu eða búnaði, tímabundið framsal á aðstöðu eða búnaði (concessions), uppbygging frá grunni (Greenfield Project), samstarf einkaaðila og opinberra aðila (Public Private Partnership). Auk þess eru til margar útfærslur á þessum lausnum þannig að skilin á milli þeirra verða oft óljós.
Í flugmálaáætlun 2000-2003 er gert ráð fyrir fimm millj. kr. á þessu ári og tíu millj. kr. á næsta ári til undirbúnings verkefnisins sem hér er nefnt samgöngu- og þjónustumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli.