Auglýsing um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á sameiningu sveitarfélaga
A U G L Ý S I N G
um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins
á sameiningu Glæsibæjarhrepps, Skriðuhrepps og Öxnadalshrepps
Með vísan til 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 24. október 2000 staðfest sameiningu Glæsibæjarhrepps, Skriðuhrepps og Öxnadalshrepps í eitt sveitarfélag.
Jafnframt hefur eftirfarandi verið ákveðið:
Sameining framangreindra sveitarfélaga í eitt sveitarfélag skal taka gildi 1. janúar 2001.
Hið nýja sveitarfélag skal taka yfir allt það land, sem nú tilheyrir áðurgreindum þremur sveitarfélögum.
Íbúar hinna þriggja sveitarfélaga skulu vera þegnar hins nýja sveitarfélags.
Eignir, skuldir, réttindi og skyldur, sem tilheyra þessum þremur sveitarfélögum skulu falla til hins nýja sveitarfélags.
Skjöl og bókhaldsgögn hinna þriggja sveitarfélaga skulu afhent hinu nýja sveitarfélagi til varðveislu.
Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi:
Kosning sveitarstjórnar hins nýja sveitarfélags skal fara fram þann 9. desember 2000, sbr. 96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Kosningin skal vera bundin hlutfallskosning, sbr. 20. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
Kjósa skal sjö fulltrúa í sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Sveitarstjórnirnar þrjár kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjórnir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 skulu vera undirkjörstjórnir við kosningarnar.
Samhliða sveitarstjórnarkosningum verður gerð skoðanakönnun um nafn hins nýja sveitarfélags samkvæmt tillögu sameiningarnefndar. Nafn hins nýja sveitarfélags verður auglýst sérstaklega.
Félagsmálaráðuneytið
24. október 2000
Húnbogi Þorsteinsson
Guðjón Bragason