Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp flutt við kynningu Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á rannsóknum á jarðskjálftum á Suðurlandi sumarið 2000

Ávarp flutt við kynningu Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á rannsóknum á jarðskjálftum á Suðurlandi sumarið 2000


Fundarstjóri.
Ágætu gestir.

Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur við þetta tækifæri. Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftafræðum á ekki langan aldur að baki en fékk heldur betur stórt verkefni til að takast á við með þeim miklu jarðskjálftum sem áttu sér stað nú í sumar.

Skýrsla miðstöðvarinnar sem nú liggur fyrir gefur okkur mynd af því hvernig við stöndum gagnvart jarðskálftavá og gefur okkur vísbendingar um til hvaða ráða Íslendingar eigi að grípa til þess að vera betur undir slíkar hamfarir búnir í framtíðinni. Þetta eru verðmætar upplýsingar, sem sýna að Rannsóknarmiðstöðin stendur undir væntingum og vel það.
Slys á fólki urðu töluvert minni en ef til vill má búast við þegar svo miklar jarðhræringar eiga sér stað – og ekkert slysanna var alvarlegt. Sjálfsagt má að einhverju leyti kalla heppni að svo vel fór, en eins og menn þekkja reið fyrri skjálftinn yfir þann 17.júní þegar margt fólk er samankomið utandyra eða inni í vel byggðum samkomuhúsum.

Eignatjón var mikið, mörg mannvirki skemmdust, innbú heimila eyðilögðust, og samgöngu- og veitukerfi urðu fyrir skemmdum. Samkvæmt skýrslunni fór þó betur en við mátti búast sem að hluta til má rekja til forvarnaraðgerða sem fyrirtæki, svietarfélög og einstaklingar hafa gripið til á undanförnum árum. Þetta minnir okkur á hversu mikilvægt er að við séu sífellt vakandi fyrir hættum sem leynast í umhverfinu og að við tökum mið af því jafnt í löggjöf og stjórnarframkvæmd, sem í daglegu lífi.

Íslendingar búa við viðvarandi umhverfisvá af ýmsum toga. Staðsetning eyjunnar okkar á hnettinum gerir líf okkar undirorpið sterkum, og oft ófyrirsjáanlegum, náttúruöflum. Það er því brýnt fyrir okkur að þekkja hætturnar og búa okkur undir að takast á við þær. Vísindin eru beittasta vopnið í þeirri baráttu, enda hafa þau skilað okkur áleiðis, þótt enn sé verk að vinna.

Þrátt fyrir að tjónið af jarðskjálftunum í sumar hafi að mörgu leyti verið minna en við mátti búast – var það samt of mikið. Verst voru tilvikin þar sem heilu fjöldskyldurnar misstu nánst allt sitt í hamförunum. Starf okkar á að miðast við að svo þurfi ekki að fara. Til þess þurfum við betri mannvirki, enn betri hönnunaraðferðir, fræðslu fyrir almenning og yfirvöld, og fyrirbyggjandi aðgerðir af ýmsum toga. Almannavarnakerfi okkar verður m.a. að taka mið af þessu.

Ég vil að lokum þakka starfsfólki Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskálftafræði og sérstaklega Ragnar Sigbjörnssyni, forstöðumanni. Það fer ekki á milli mála að þar fer fram verðmætt og mikilvægt starf, sem mun án efa styrkja viðleitni okkar til þess að auka öryggi þeirra fjölmörgu Íslendinga sem búa við vá af jarðskjálftum. Þessi fundur sem hér mun fara fram er skref í þá átt að nota þessar rannsóknir, og nýja þekkingu sem skapast hefur í almanna þágu. Ég vona hann gangi vel og skili því sem að er stefnt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta