Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2000 Heilbrigðisráðuneytið

28. október - 3. nóvember


Fréttapistill vikunnar
28. október - 3. nóvember


Alþingi : Rætt um greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði
Almennar niðurgreiðslur vegna lyfja lækka ekki hlutfallslega þótt fyrirkomulagi endurgreiðslu verði breytt. Verið er að skoða möguleika þess að flytja niðurgreiðslur á lyfjum til þeirra sem bera þyngstan kostnað vegna sjúkdóma sinna en auka greiðsluhlutdeild þeirra sem eru frískir og þurfa sjaldan lyf. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, í utandagskrárumræðum á Alþingi í dag [3. nóv.] um greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. Nýtt endurgreiðslukerfi sem Danir tóku í notkun í mars s.l. byggist á þessari hugmyndafræði og hjá Tryggingastofnun ríkisins er nú unnið að útfærslu og aðlögun danska kerfisins að íslenskum aðstæðum. Ráðherra sagðist bíða þeirrar útfærslu og gæti ekki svarað því hvort danska kerfið yrði tekið í notkun hér fyrr en hún lægi fyrir. Hins vegar yrði nýtt kerfi ekki tekið í notkun til þess að minnka útgjöld vegna lyfja heldur til þess að draga úr sjálfvirkum vexti þeirra.

Heilbrigðisráðuneytið auglýsir styrki til gæðaverkefna
Í samræmi við gæðaáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í heilbrigðismálum auglýsir ráðuneytið eftir umsóknum um styrki til verkefna á sviði gæðamála. Styrkirnir geta numið frá 100.000 kr. upp í 500.000 kr. og ræðst upphæðin af umfangi og eðli verkefna. Samtals verður úthlutað um tveimur milljónum króna í ýmis verkefni. Umsóknir um styrki skulu vera í nafni einstakra stofnana eða starfseininga. Umsóknarfrestur er til 3. desember n.k.
Sjá nánar >

Kunnátta almennings í skyndihjálp efld með námskeiðum um allt land
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Rauði kross Íslands undirrituðu í dag [3. nóv.] samkomulag sem miðar að því að efla og breiða út kunnáttu í skyndihjálp meðal almennings. Samkvæmt samkomulaginu skuldbindur Rauði krossinn sig til að bjóða fólki um allt land aðgang að námskeiðum í skyndihjálp. Jafnframt mun félagið gefa út fræðslu- og kynningarefni og sjá um menntun leiðbeinenda. Kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum og hefur ósjaldan bjargað mannslífum eða komið í veg fyrir varanleg örkuml. Því skiptir miklu að sem flestir hafi þessa kunnáttu á valdi sínu. Ráðuneytið og Rauði krossinn munu gefa út viðurkenningu til einstaklinga og vinnustaða sem sækja skyndihjálparnámskeið á vegum félagsins. Skipað verður s.k. Skyndihjálparráð sem mun annast viðhald á námsskrá í skyndihjálp og veita umsagnir um álitaefni sem ráðinu berast.

Vátrygging heilbrigðisstarfsfólks og stofnana samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett nýja reglugerð um vátryggingu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum með löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er skylt að hafa í gildi vátryggingu. Aðrir sem eru vátryggingaskyldir eru: Sjúkrahús sem ekki eru í eigu ríkisins. Heilbrigðisstofnanir, þ.m.t. lyfsölur og rannsókna- og röntgenstofur sem ekki eru í eigu ríkisins. Heilsugæslustöðvar sem ekki eru í eigu ríkisins. Þeir sem annast sjúkraflutninga, aðrir en ríkið og hjúkrunarheimili og dvalarheimili með hjúkrunardeild sem ekki eru í eigu ríkisins. Vátryggingaskyldir heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir skulu senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu staðfestingu um að þeir hafi í gildi vátryggingu sem uppfyllir skilyrði laga um sjúklingatryggingu og umræddrar reglugerðar. Frestur til að senda ráðuneytinu staðfestingu á þessu rennur út 31. desember.

Upplýsingarit um almannatryggingar og félagslega þjónustu í 18 löndum, þ.á.m. Íslandi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tekur nú í fyrsta sinn þátt í samvinnu aðildarríkja Evrópusambandsins um útgáfu upplýsingarits um almannatryggingar og félagslega þjónustu í ríkjunum (Mutual information system on social protection - MISSOC). Upplýsingaritið er gefið út af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og í því eru nú upplýsingar um almannatryggingar og félagslega þjónustu í 18 ríkjum, þ.á m. á Íslandi. Upplýsingarnar miðast við 1. janúar 2000. Ritið er gefið út á hverju ári og vinnur sérstakur vinnuhópur sérfræðinga í almannatryggingum frá öllum ríkjunum að því að búa til skilgreiningar sem almannatryggingar og félagsleg aðstoð eru síðan flokkuð eftir. Með þessum hætti fást sambærilegar upplýsingar um almannatryggingakerfi og félagslega þjónustu í ríkjunum. Mikilvægt er að hafa slíkar upplýsingar tiltækar þar sem það færist í aukana að litið sé til löggjafar og framkvæmdar í öðrum Evrópuríkjum. Íslenska efnið í ritið var unnið á lögfræðiskrifstofu ráðuneytisins í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins. Einnig var höfð samvinna við félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið varðandi málaflokka sem heyra undir þau ráðuneyti. MISSOC-upplýsingaritið er gefið út í bókarformi á ensku, frönsku og þýsku af Office for Official Publications of the European Communities, L-2985 Luxembourg, og er unnt að panta það á vefslóðinni:http://eur-op.eu.int

Ritið fyrir árið 2000 verður einnig birt á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar, Directorate-General for Employment and Social Affairs, Unit E/2, eftir 15. nóvember n.k. Netfang framkvæmdastjórnarinnar fyrir MISSOC árið 1999 er:http://europa.eu.int/comm/employment_social/soc-prot/missoc99/english/f_main.htm

Meðganga fæðing og sængurlega - Landspítalinn eykur þjónustuna
Hreiðrið á kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss var opnað í dag [3. nóv.]. Í starfsemi þess er lögð áhersla á samfellda þjónustu við konur á meðgöngutímanum, við fæðinguna sjálfa og í sængurlegunni. Fjölskyldunni er gert kleift að dvelja saman fyrst eftir fæðinguna, en átta s.k. fjölskylduherbergi eru á deildinni sem ætluð eru fyrir fæðingu og sængurlegu. Mikið er lagt upp úr að styrkja tengsl móður, föður og barns við fæðingu.
Sjá nánar >


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
3. nóvember 2000



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta