Nr. 089, 9. nóvember 2000.Utanríkisráðherrafundur Evrópuráðsins í Strassborg
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 089
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sat í dag utanríkisráðherrafund Evrópuráðsins í Strassborg, Frakklandi. Helstu viðfangsefni fundarins voru uppbyggingarstarfið í Júgóslavíu ásamt stjórnmálaástandinu í Suð-Austur Evrópu. Sérstakur gestur utanríkisráðherrafundarins var Vojislav Kostunica forseti Júgóslavíu.
Í ávarpi sínu á fundinum fjallaði utanríkisráðherra m.a. um hlutverk Evrópuráðsins í uppbyggingarstarfinu í Júgóslavíu. Evrópuráðið hefði, að hans áliti, mikilvægu hlutverki að gegna við uppbyggingu og eflingu mannréttinda og lýðræðislegra stjórnarhátta í Júgóslavíu vegna einstakrar reynslu þess af sambærilegu uppbyggingarstarfi í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu á síðasta áratug. Framlag þess myndi að verulegu leyti felast í aðstoð við samningu laga ásamt þjálfun embættismanna og dómara. Mikilvægt væri að nýta sérþekkingu ráðsins í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir, sérstaklega Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Lýðræðisleg Júgóslavía hefði mikilvægu hlutverki að gegna fyrir varanlegan stöðugleika á Balkanskaga. Utanríkisráðherra tók jafnframt undir tillögu Walter Schwimmer aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins um að Evrópuráðið opnaði sérstaka skrifstofu í Belgrad.
Utanríkisráðherra áréttaði stuðning sinn við stækkun Evrópuráðsins og mikilvægi þess að umsóknarríkin virtu grundvallarreglur þess um mannréttindi, lýðræði og reglur réttarríkisins. Hann lýsti ánægju sinni með undirbúning Armeníu og Aserbaídsjan vegna aðildar að Evrópuráðinu og að mikilvægt væri aðstoða og vinna með þeim að eflingu mannréttinda og lýðræðis. Gert er ráð fyrir formlegri aðild ríkjanna að ráðinu í byrjun næsta árs.
Utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum sínum vegna slæmrar fjárhagsstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og vísaði þar til síaukins málafjölda fyrir dómstólnum. Eitt áhersluatriða í formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins á síðasta ári hefðu verið auknar fjárveitingar til Mannréttindadómstóls Evrópu í því skyni að tryggja skilvirknihans. Ákveðnum árangri hefði þar verið náð en mikilvægt væri að aðildarríki Evrópuráðsins treystu fjárhagsgrundvöll dómstólsins svo að hann geti betur sinnt stórauknum málafjölda.
Undir lok fundarins samþykktu utanríkisráðherrarnir sérstaka yfirlýsingu þar sem Evrópuráðið var lýst svæði án dauðarefsinga. Afnám dauðarefsingar er eitt skilyrða fyrir aðild ríkja að Evrópuráðinu.
Daginn áður héldu ráðherrarnir sérstakan fund með George Soros, stofnanda Open Society Fund. Á fundinum voru rædd málefni ríkjanna á Balkanskaga og starf Evrópuráðsins við að treysta mannréttindi og framfarir á svæðinu. Stofnanir George Soros verja árlega allt að 600 milljónum bandaríkjadala til eflingar lýðræðis og mannréttinda, sérstaklega í ríkjum Mið- og Austur Evrópu.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 9. nóvember 2000.