Fréttapistill vikunnar
11. - 17 nóvember
Samið verður við fjögur fyrirtæki um sjúkra- og áætlunarflug
Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við fjögur fyrirtæki um sjúkra- og áæltunarflug í landinu. Þetta eru Flugfélag Íslands, Flugfélag Vestmannaeyja, Íslandsflug og Leiguflug Ísleifs Ottesens. Samningsgerð verður í höndum Ríkiskaupa og er áhersla lögð á að samningum verði hraðað eins og kostur er.
Sjá nánar >
Stækkun hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tók í gær (16. nóv.) fyrstu skóflustunguna að viðbyggingu við hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. Með stækkuninni bætast við tuttugu ný hjúkrunarrými. Unnið er að lagfæringum og endurbótum í gamla hluta Sunnuhlíðar, m.a. með fjölgun einbýla. Við það fækkar rúmum um fimm. Auk tuttugu nýrra hjúkrunarrýma í viðbyggingu er gert ráð fyrir að flytja starfsemi sjúkraþjálfunarinnar í nýja húsnæðið. Þá er einnig áætlað að þar verði sjö rými fyrir skammtímainnlagnir. Heildarkostnaður vegna stækkunar Sunnuhlíðar er áætlaður 240 m.kr. Stefnt er að því að nýtt húsnæði verði tekið í notkun 1. nóvember 2001.
Frumvarp til laga um lækningatæki
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun á næstunni mæla fyrir frumvarpi til laga um lækningatæki. Samkvæmt frumvarpinu munu lögin taka til framleiðslu, sölu, markaðssetningar, markaðseftirlits, viðhalds og notkunar á lækningatækjum og eftirlits heilbrigðisyfirvalda með þeim. Markmiðið er að koma í veg fyrir að notendur lækningatækja verði fyrir tjóni og tryggja að framleiðsla, viðhald og noktun þeirra sé í samræmi við bestu fagþekkingu á hverjum tíma.
Sjá frumvarpið >
Tjón á heilsugæslustöð og læknisbústað á Hvolsvelli í Suðurlandsskjálfta 2,6 m.kr.
Töluverðar skemmdir urðu á heilsugæslustöðinni og læknisbústaðnum á Hvolsvelli í stóru jarðskjálftunum sem riðu yfir Suðurland í sumar. Mat Viðlagatryggingar Íslands á tjóninu liggur nú fyrir og nemur samkvæmt því 2,6 m.kr.
Persona.is: Upplýsingar og ráðgjöf um geðræn vandamál á Netinu
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra opnaði í vikunni vefinn persona.is, sem er umfangsmikill vefur um geðræn vandamál. Að vefnum stendur hópur einstaklinga og fyrirtækja sem tengjast geðheilbrigðismálum. Vefurinn er ætlaður til fræðslu og upplýsingaöflunar og til að gera notendum grein fyrir þeim möguleikum sem fyrir hendi eru til að takast á við vandamál á þessu sviði. Efni vefjarins er skipt í þrjá meginflokka sem fjalla um geðheilsu, daglegt líf og börn og unglinga. Höfundar efnis eru um fimmtíu.
Persóna.is>
Skipuð samstarfsnefnd til að meta og uppræta smithættu í umhverfinu sem ógnað getur heilsu fólks
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað sérstaka samstarfsnefnd til að afla gagna og hafa yfirumsjón með aðgerðum til að meta og uppræta smithættu þegar dýr, matvæli, starfsemi, vatn, skolplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifir eða getur dreift smitnæmum sjúkdómsvöldum sem ógna heilsu manna. Samkvæmt lögum hefur nefndin aðgang að öllum gögnum og stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða. Getur nefndin fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Nefndinni ber að gefa öllum sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi, fyrirmæli um að grípa tafarlaust til allra nauðsynlega aðgerða til að uppræta smithættu. Formaður nefndarinnar er Haraldur Briem, sóttvarnalæknir. Nefndin er skipuð í samræmi við lög nr. 19/1997 um sóttvarnir.
Umsóknir um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk skv. lögum nr. 95/2000
Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 taka gildi 1. janúar n.k. og heyrir sú löggjöf undir félagsmálaráðuneytið. Athygli er vakin á því að á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins er nú hægt að verða sér úti um eyðublöð vegna umsókna um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk.
Umsóknareyðublað>
Ráðstefna um öldrunarþjónustu - samábyrgð þjóðarinnar
Ráðstefna undir yfirskriftinni Verðmæti umönnunar fyrir íslenskt samfélag - Öldrunarþjónusta samábyrgð þjóðarinnar verður haldin á hótel Loftleiðum, fimmtudaginn 30 nóvember. Markmiðið er að benda á að aldraðir og öldrun kemur öllum við og því beri allir Íslendingar ábyrgð á að standa vörð um ellina og þjónustu við aldraða. Í því felst að tryggja nauðsynlegt fjármagn og mannafla svo aldraðir geti haldið reisn sinni þrátt fyrir fötlun og þörf fyrir umönnun. Að ráðstefnunni standa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Efling, Félag íslenskra öldrunarlækna, Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu, deild hjúkrunarforstjóra í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, landlæknisembættið, Landssamband eldri borgara, Sjúkraliðafélag Íslands og Öldrunarráð Íslands.
Níutíu ára afmæli Vífilsstaðaspítala
Níutíu ár eru liðin frá því að heilsuhælið á Vífilsstöðum hóf starfsemi. Í tilefni þess var opið hús þar í dag þar sem almenningi gafst kostur á að kynna sér starfsemina þar og einnig að skyggnast inn í liðna tíð þegar Vífilsstaðir voru heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Í upphafi sá Heilsuhælisfélagið um reksturinn en 1. janúar 1916 tók ríkið við rekstrinum. Tilgangur með heilsuhælinu var eingöngu að vista og lækna berklasjúklinga. Vífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala og komið þar upp lungnadeild. Vífilsstaðir eru hluti af Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þar er núna lungnadeild, langlegudeild fyrir lungnasjúklinga, húðlækningadeild, göngudeild fyrir lungnasjúklinga og göngudeild fyrir ofnæmissjúklinga, sú eina á landinu. Einnig fer fram á Vífilsstöðum greining og meðferð öndurnartruflana í svefni.
Danmörk: Gæðastimplar fyrir elliheimili
Félagsmálaráðherra Danmerkur, Dam Kristensen, stefnir að því að koma á gæðastimplum fyrir elli- og hjúkrunarheimili. Hefur hann lagt til að efnt verði til samkeppni á milli sveitarfélaga um hvert þeirra bjóði bestu þjónustuna fyrir aldraða. Til að byrja með verður stofnunum í sjálfsvald sett hvort þær taki þátt í verkefninu. Til að hljóta gæðastimpil ráðuneytisins þurfa stofnanir að uppfylla ákveðnar kröfur. M.a. verður mat lagt á lyfjagjöf, veikindadagar starfsfólks þurfa að vera innan ákveðinna marka, mat verður lagt á vinnuumhverfi starfsfólks og einnig áhuga þess á starfinu. Kristensen telur að koma megi á fót svipuðum verkefnum í tengslum við aðra þætti félagslegrar þjónustu í framtíðinni. Verkefni félagsmálaráðherrans er þó umdeilt og hefur m.a. verið gagnrýnt á þeim forsendum að það auki skriffinnsku, sé kostnaðarsamt og dragi úr möguleikum sveitarfélaga til að laga þjónustu sína að staðbundnum þörfum.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
17. nóvember 2000