Skipun nefndar um rafræna stjórnsýslu
Frétt nr.: 27/2000
Ríkisstjórnin hefur nýlega skilgreint rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu sem fjórða forgangsverkefni í framkvæmd stefnu hennar um málefni upplýsingasamfélagsins. Í því felst m.a. að búa upplýsingakerfi stjórnvalda þannig úr garði að gagnvirk rafræn samskipti almennings og stjórnvalda fullnægi þeim kröfum sem starfsumhverfi hins opinbera gerir til málsmeðferðar stjórnvalda.
Hefðbundin málsmeðferð stjórnvalda er að stærstum hluta pappírsbundin og reglur um starfshætti þeirra miðast við það. Því er viðbúið að rafræn meðferð og afgreiðsla mála í stjórnsýslunni - rafræn stjórnsýsla - feli í sér í töluverðar breytingar á hefðbundnum starfsháttum stjórnvalda. Í ljósi þess hefur verið ákveðið að farið verði með skipulegum hætti yfir hvaða lagalegu hindranir kunni að standa því í vegi og hvaða lagalega umhverfi sé almennt æskilegt að búa rafrænni stjórnsýslu til framtíðar.
Í þessu skyni hefur forsætisráðherra skipað nefnd til að kanna hvort og þá eftir atvikum hvaða lagabreytinga sé þörf til að stjórnsýslan geti áfram þróast rafrænt á æskilegan hátt. Nefndinni er í starfi sínu falið að kynna sér hvaða leiðir hafa verið farnar annars staðar á Norðurlöndum í framangreindu skyni og undirbúa þær lagabreytingar er hún telur nauðsynlegar.
Formaður nefndarinnar er Páll Hreinsson prófessor og formaður stjórnar Persónuverndar, en ásamt honum eiga sæti í nefndinni Kristján Andri Stefánsson deildarstjóri í forsætisráðuneytinu og Skúli Magnússon lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
Í Reykjavík, 15. nóvember 2000.